Aprílsólarkuldi

aprílsólarkuldi
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

Um bókina

Aprílsólarkuldi lýsir föðurmissi Védísar, skóla-stúlku sem er einstæð móðir; ástinni sem kemur næstum jafn óvænt og ferlinu inn í sjúkdóm, öllu í einni augnablikseilífð.

Hvað gerist milli fólks þegar orðin bregðast? Glata merkingunni. Þegar tengslin við tungumálið bresta, hvað er þá til ráða? „… því heimurinn mun ekki standa nema vegna merkingar, annars mun hann sáldrast niður og manneskjan getur annars ekki lifað í heiminum,“ segir í sögunni.

Úr bókinni

   Þessi saga er um unga stúlku á norðurhveli jarðar sem missir pabba sinn og atburðina í kjölfar þess. Hún veikist á geði því hún getur ekki sýnt nein sorgarviðbrögð. Hún verður ástfangin eftir dauða föðurins og kynnist dópi í leiðinni. Þegar kærastinn fer frá henni sýnir hún heldur engin sorgarviðbrögð, geðveikin nær tökum á henni því hún hefur fengið áfall ofaní áfall, fyrst misst föðurinn, svo kærastann, - sjúkdómurinn hennar er sennilega meðfæddur en brýst nú fram, - og hver veit hvort það að hún stendur á þröskuldi fullorðinsáranna hefur sín áhrif, hún vill ekki fara með barnið inní fullorðinsárin því fyrst þarf að næra og hugga barnið, bernskuna. En hefst nú sagan.
   Það bíða skilaboð til hennar milli hárra fjalla um að hringja heim. Þegar hún kemur heim með litla strákinn sinn er farið að kvölda. Hún hafði farið í skólann einsog venjulega um morguninn og fjöllin sem umluktu plássið voru jafnhá og venjulega.
   Stundum sat hún í stól í stofu á þriðju hæð við sjóinn og eina sem sást útum gluggann var fjallið og hafið. Fjallið var ótrúlega stöðugt og það mundi alltaf vera þarna. Sjórinn sigldi hjá í misjafnri birtu milli hússins og fjallsins. Hún gæti setið þarna til eilífðar með grátt grjótið og blátt hafið fyrir augunum og hún gerði það stundum. Fjallið var á hreyfingu. Hafið var stöðugt. Fjallið og hafið voru eilíf og hún trúði ekki á dauðann, hugsaði aldrei um dauðann og hafði ekki kynnst honum. Hún myndi alltaf lifa. Þó var eitthvað við þetta útsýni sem minnti á forgengileik manneskjunnar. Þessvegna gat hún setið þarna svona lengi. Hið eina sem manneskjunni var mögulegt að skilja eftir sig voru minnismerki og nýjar kynslóðir.
   Hún hafði farið með litla strákinn sinn til dagmömmunnar einsog venjulega, hann var tveggja ára og þau bjuggu í tilkomumikilli leiguíbúð kaupmannsekkju sem hafði yfirgefið plássið eftir að maðurinn hennar dó en kom við og við í dularfullar heimsóknir. Pabbi hennar hafði komið því í kring að hún fengi íbúðina á leigu gegn því að vélrita minningargrein sem ekkjan hafði skrifað um vinkonu sína. Það var hátt til lofts og vítt til veggja, margir stórir gluggar gerðu íbúðina bjarta og konunglega, eldhúsið var blámálað og í því risastórt borð sem mátti gera allt við. Píanó í stofunni og baðker á ljónsfótum á baðherberginu. Á neðri hæðinni var eyðiverslun sem kaupmannshjónin höfðu átt og þegar hún hélt partý læddust þau niður og skoðuðu lagerinn: Undarlega fín efni í ströngum, með gamaldags sígildum mynstrum og skrautlegar tölur og gulnuð auglýsingaspjöld. Þegar hún vildi kjafta við einhvern sætan strák stungu þau af inní lítið herbergi innaf búðinni og samkvæmið hélt áfram að sjálfu sér á efri hæðinni, keyrt áfram af orku sem laut eigin lögmálum. Á hæðinni fyrir ofan hana var vegagerðin til húsa. Þar var verið að reyna að skipuleggja hina krókóttu vegi sem hlykkjuðust yfir fjöll og meðfram hengiflugi og ábúðarfullir menn skutust upp og niður alla daga. Henni fannst gott að hafa vegagerð í húsinu sínu.
   Hún var í menntaskóla þennan vetur og hafði valið að vera útá landi, sennilega tilað komast að heiman. Hún bjó ein með litla stráknum sínum, hafði sagt barnsföður sínum upp um áramótin, farið á víðáttufyllerí sama kvöld, dansað allt ballið og var mjög fegin morguninn eftir þegar hún vaknaði. Nú var að koma vor. Hún hafði sótt strákinn til dagmömmunnar og það var örugglega gott veður, aprílbirta, en seinna þegar hún hugsaði um þennan örlagaríka dag, gat hún með engu móti munað hvert þau höfðu lagt leið sína.
   Það var farið að skyggja þegar þau komu heim. Þá var búið að líma miða á hurðina sem á stóð: Védís, þú átt að hringja heim.

(s. 7-9)