Andlit í spegli dropans

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1957
Flokkur: 

Úr Andlit í spegli dropans:

SAMNEFNARI, EINN LISTAMAÐUR

Þú við strætið mikla Champs Elysées.
Og mistrið við Champs Elysées á kvöldum þegar þú situr við borð á gangstéttinni fyrir utan zinkbar veitingasalarins og neonljós og Dubonnet- og Cinzano-flöskurnar og þjónn á hvítum jakka með körfubakka í hendi, harðnandi brauð: þetta fyrir innan glerið, og birtan æpir inni yfir tómlátum reytingi viðskiptafólks. Þú úti. Og sumrinu hallar.
Situr í áliðinni hlýju og finndur sumarið fjara út í fingurgómum þínum og horfir á tíu þúsund andlit af mannkyni renna fyrir sjónum þínum, stíga fram úr mistrinu eins og fyrirboðar þess óorðna en ekki minning hins sem verið hefur, birtast eins og upplúkning örlagagátu, sópa með gusti sínum blikflöt hins sjáandi auga, ýfa gára á borði þess, hring eftir hring sem springa í jaðri vitundarkjarnans. Hverfa svo aftur í mistrið. Hafa aldrei verið til.
Þú samnefnarinn.
Þú sú óráðsmynd sem mannkynið ól í sóttheitum frumskógi heildar sinnar. Sú titrandi mynd máluð eimi sem rýkur af heitum sárum hinna brotnu líkneskja sem voru lostin reiði höfundar. Rís af dufti þeirra holdteknu fyrirheita sem hafa sundrazt. Stígur þú. Upp af ösku þeirra elda sem um stund virtust til einskis brenna, öngum: stígur þú. Og lifir þitt dauðlega andartak í ofsa leiftursins í þáttaskilum . . . .
Þú situr við kringlótt borð með rauðum plastspegli þinna grönnu mælsku fingra, híazintu hins ósýnilega þurra vatns sem streymir óhöndlandi yfir þyrsta skorpu jarðarinnar fjötraða í steinbrynju borganna. Svalar ekki. En á fleti þess fljóta þúsund borðplötur veitingahúsanna á þessum hlýju kvöldum með gjaldskráða líknarbikara og kaleika koníaks, pernod, vin rouge, eða jafnvel mirabelle, en undir seig til grunns þykkur járnfrosinn stilkurinn sem spennir málmklær þrjár ofan í andlitslausa steingrímu gangstéttarinnar.
Þá teygir þú rýran drómundarhandlegg niður í vatnið sem hugsun þín nemur ein, og seilist eftir afskekktum málmbolnum og dregur hann að þér svo það öskrar af stéttinni þegar járnið missir hins ónæma steins og kveinar af vanmáttugri heift.
Þannig horfir ein sjónlinsa þessa andartaks og sáir myndfræjum mannkynsslitranna í plógför þíns verðandi andlits sem kannski er bara heitur grunur og þrá. Þrá þeirrar myndar sem einhver er að reyna að mála.
Þú. Hvað ert þú sem situr við strætið mikla Champs Elysées í kvöld? ein af leikbrúðum sviðsins, og situr á þakbrúninni og horfir á það allt? Og heyrir eldana snarka í rústum borganna að baki.

(s. 117 - 118)