Amó Amas

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Amó Amas:

Leyndarmálið

Torkennileg hljóð og stapp vöktu Ómar og hann klessti morgunfúlu andlitinu upp að kaldri rúðunni. Skrauta hafði stolist úr fjósinu i morgunsárið og stóð snusandi og baulandi á stéttinni. Afi reyndi að draga hana í burtu en hún hristi hausinn í hvert skipti, sem hann greip í eyrun á henni, og reyndi að stugga honum í burtu. „Amó, Amó!“ Ómar nuddaði stírurnar úr augunum á leið í bókaherbergið þar sem Amó átti að sofa en hann sat í mestu makindum á gólfinu með tugi bóka í kringum sig. „Það er verið að spyrja um þig,“ sagði Ómar og glennti upp augun þegar hann sá Amó renna fingri eftir hverri blaðsíðunni á fætur annarri í Alfræðibókinni. „Skrauta er að spyrja um þig.“ Amó brosti og lagði bókina frá sér, „Gastu ekki ákveðið hvað þú áttir að lesa?“ spurði Ómar geispandi og leit yfir bókastaflann. „Jú, en ég náði bara að klára þessar sem eru á gólfinu. Hjónin eiga afskaplega áhugaverðar bækur.“ Amó klæddi sig í peysu og tróð sér fram hjá Ómari sem klóraði sér í rassinum, geispaði öðru sinni og hristi syfjað höfuðið. „Það er gott að þú skulir hafa eitthvað að gera á nóttunni,“ sagði hann og henti sér á rúmið. Afi stóð, sótrauður af reiði, fyrir framan Skrautu og bölvaði henni í sand og ösku. Augnabrúnirnar á honum gengu upp og niður í látunum og andlitið bar ekki vott um hlýhug til skepnunnar. Skrauta hljóp hann næstum um koll þegar Amó birtist og sleikti á honum hendurnar. Amó kastaði kveðju á afa og trítlaði svo af stað í fjósið með Skrautu, eins og vel uppalið lamb, í eftirdragi. Hann skeytti engu um munnsöfnuð karlsins en brosti út í annað þegar hann sá Maríu bregða fyrir í glugganum. Amma var jafn forviða og afi þegar hún vaknaði því eldhúsið var nýþrifið og allt leirtauið tandurhreint inni í skáp. Þegar Amó sá spurnarsvipinn á ömmu sagðist hann hafa átt erfitt með að festa blund. Ómar drattaðist niður þegar hafragrauturinn var næstum uppurinn en afi tönnlaðist á því hvers konar hæfileikum þessi borgarstrákur byggi eiginlega yfir. „Ertu viss um að þú hafir aldrei verið í sveit?“ Amó þvertók fyrri það en sagði að sumir hefðu vissa dýraeiginleika í sér sem gerði þeim kleift að skilja þarfir dýranna betur en öðrum. María brosti út að eyrum og Þórhildur taldi mjólkurglösin sem afi svolgraði í sig.

(s. 32-33)