Alveg milljón!

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

úr bókinni

Hann sá í spegilmynd í gluggarúðunni að bíllinn bremsaði snögglega á miðri götunni fyrir aftan hann. Og í sömu andrá stökk einhver út úr honum. Sá þegar hann leit um öxl að maður í svörtum leðurjakka með dökkleita lambhúshettu yfir höfðinu hentist upp á gangstéttina hinumegin og reif tösku út úr höndunum á manni sem var þar á gangi og átti sér einskis ills von. Stóð eins og negldur niður í gangstéttina og saup hveljur þegar hann áttaði sig á hvað var á seyði.
 Rán!
 Horfði á ránsmanninn sem skaust eins og kólfi væri skotið upp í bílinn aftur. Sá ekki framan í hann. Það var bara gat fyrir augun á hettunni.
 Það söng í malbikinu þegar bíllinn geystist af stað og stakk sér með háværu ískri niður í götuna sem lá í áttina að sjónum. Gamall, ljósblár Volvó. Hann starði á eftir honum og fann blóðið þjóta fram í kinnarnar. Gat ekki ímyndað sér annað en að það yrði uppi fótur og fit allt í kringum hann.
 Nei.
 Það var ekki að sjá að neinn hefði gefið þessari uppákomu gaum nema hann. Og þó var engu líkara en bíótjald hefði allt í einu rifnað í sundur eða sjónvarpsskjár brostið og skúrkur úr glæpamynd komið æðandi inn í miðjan áhorfendasal. Út úr leikaraskapnum og inn í þennan blákalda veruleika á Laugaveginum í Reykjavík. Beint fyrir framan nefið á honum.
 Og öllum í kring.

(s. 5-6)