Afleggjarinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007
Flokkur: 

Einnig gefin út í kiljuútgáfu 2008 og 2012.

Um bókina:

Ungur maður sem er svo að segja alinn upp í gróðurhúsi á brýnt erindi til afskekkts staðar í útlöndum. Heima skilur hann eftir aldraðan föður, þroskaheftan bróður og guðdómlegt stúlkubarn sem han eignaðist óvart „með eins konar vinkonu vinar síns“. Á nýja staðnum tekur lífið á sig nýja mynd og söguhetjan tekst á við karlmennsku sína, ástina, rósarækt og óvænta ábyrgð.

Úr Afleggjaranum:

Þegar ég vakna man ég ekki strax hvar ég er, mér finnst ég snöggvast finna lykt af blautri mold og gróðri, eins og að vakna í tjaldi í rigninu, samt er allt hvítt. Ég er aleinn og ég virði fyrir mér herbergið, renni augunum hringinn þar til ég kem að náttborðinu við hliðina á rúminu. Upp úr þremur plastglösum sem raðað hefur verið á borðið gægjast jafnmargir grænir stönglar, ég kannast við þá, það eru afleggjararnir mínir. Inn á milli glasanna hefur verið stungið handskrifuðum miða. Ég þreifa undir sængina eftir líkamanum sem búið er að skera í og tjasla saman, til að finna að hann er raunverulegur, að ég sé á lífi. Ég leita uppi púlsinn og finn líka fyrir hartslættinum, því næst færi ég mig neðar og strýk laust yfir kviðvöðvana, einn réttsælis hring, ég gef mér líka tíma til að kanna aðra líkamsparta, loks nálgast ég varlega staðinn með umbúðunum þar sem ég var skorinn og ýti laust á skurðinn. Síðan reisi ég mig upp á olnbogann og þótt ég sé vankaður og saumurinn togi í, næ ég að fiska orðabókina upp úr fremra hólfi bakpokans. Það tekur nokra stund að raða skilaboðunum saman, orð fyrir orð:

Ég hugsaði um afleggjarana þína. Setti kollega minn á næstu vakt inn í málið. Er farin í frí til foreldra minna uppi í sveit. Góðan bata, rauðhærði strákur. P.S. Fann jólapakkann í bakpokanum þegar ég var að gá að plöntunum.

Hún hefur lagt pakkann frá pabba ofan á sængina. Hann er pakkaður í jólapappír með hreindýra- og bjöllumynstri, með blárri slaufu og krulluðum endum. Ég opna pakkann. Það eru náttföt, þykk, langröndótt flónelsnáttföt, rendurnar ljósbláar. Þau líkjast röndóttum náttfötum pabba og þeim sem hann kaupir á Jósef bróður. Ég tek þau engu að síður úr plastinu og fjarlægi pappann innan úr bolnum. Pabbi hefur klippt verðmiðann af. Þegar ég tek nátttreyjuna upp, dettur skrautritað kortið innan úr erminni:

Lobbi minn. Margs er að minnast og margt er að þakka á liðnum árum. Við Jósef sendum þér hlýjar kveðjur um leið og við óskum þess að þessi tilgerðarlausu náttföt komi að góðum notum í eilífum stormbeljanda (innan gæsalappa á kortinu) útlanda.
Þínir pabbi og Jósef.

Hann hefur jafnvel látið Jósef krota stafina sína undir. Hvað átti hann við með tilgerðarlausu? Hann vissi að ég svaf í mesta lagi í nærbuxum, var það tilgerðarlegt að sofa náttfatalaus eins og ég var vanur?

Ég ætla framúr, berfættur, en saumurinn tekur í og mig svimar. Ég finn hvað ég verð þungur, eins og ég standi upp að hnjám í straumþungri á, svo ég leggst aftur útaf og sofna. Næst þegar ég vakna stendur kona í hvítum slopp við rúmið, með brútn sítt hár í tagli, það er samt ekki sú sama og síðast. Ég fæ sykrað pokate að drekka og ristaða brausneið með osti. Á meðan ég drekk teið talar hún við mig. Hún sýnir plöntunum áhuga.

(35-6)