Af mönnum ertu kominn, endurminningar

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985

Úr Af mönnum ertu kominn:

Tæpum mánuði eftir að foreldrar mínir fluttust í Skálholt fæddist ég fimmtudaginn 7. apríl 1921 klukkan hálfsjö að kvöldi. Veðurlýsingu dagsins hef ég lesið í gamalli dagbók: hálfheiðskírt, hægur suðvestan fyrripartinn, en nokkuð hvass seinnipartinn og þykkt loft, ágætt veður. En móðir mín sagði mér á efri árum að verið hefði stafalogn og sólskin, fegursta veður, svo henni hefur verið þessi vordagur öllu bjartari í endurminningu en efni stóðu til. Hún var þá í blóma lífsins, tuttugu og þriggja ára og virðist hafa átt góða daga um meðgöngutímann, því vel haldinn kom ég í heiminn: 20 merkur og uppreisnargjarn frá fæðingu, harðneitaði brjóstinu og öskraði sem griðungur þangað til ljósa mín stakk upp í mig pela.
 Móðir mín stóð á því fastar en fótunum til æviloka að ég hefði ekkert sofið fyrstu ellefu mánuði ævinnar. Ég vefengdi þetta lengi vel og flestir aðrir voru jafnvantrúaðir á vitnisburð hennar um vökuþrek krakkans. En hún sat við sinn keip og taldi sig gerst mega um það vita. Hún var sannsögul kona og vandséð hvað henni hefði gengið til að spinna upp þvílíka sögu. Ég legg því fullan trúnað á orð hennar. Í fyrstu viðbrögðum mínum við hörðum heimi speglast þó ekki eðli mitt allt. Mætti fremur segja með árunum hafi þetta snúist við: þó ég meti að verðleikum pela með sannri sálarbirtu í hef ég ekki nema á óvitaaldri tekið hann fram yfir konubrjóst, og framan af ævi var ég engu minni svefnpurka en aðrir. Á fullorðinsárum hef ég hins vegar komist af með lítinn svefn án þess vinnuþrek skertist. En vaka ellefu mánuði í einni lotu? Nei, til þess þarf maður að vera upp á sitt besta.

(s. 11-12)