Æskumynd listamannsins

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000

Sigurður A. Magnússon þýddi og ritaði formála. James Joyce: A Portrait of the Artist as a Young Man

Úr Æskumynd listamannsins:

- Fram með loppuna! hrópaði deildarforsetinn.
Fleming rétti fram höndina. Spanskreyrinn lenti á henni með háum smelli: eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex.
 - Hina loppuna!
 Aftur vakti spanskreyrinn sex háa og snögga smelli.
- Krjúptu á kné! hrópaði deildarforsetinn.
 Fleming knékraup og þrýsti höndunum upp í handarkrikana. Andlitið var afmyndað af sársauka, en Stephen vissi hve harðgerar hendurnar á honum voru afþví Fleming var sífellt að nudda þær með harpeis. En kannski fann hann núna sárt til, því hvinurinn í spanskreyrnum var hræðilegur. Hjartað í Stephen sló ótt og títt.
 - Haldiði áfram að vinna, allir saman! hrópaði deildarforsetinn. Við kærum okkur ekki um neina lata slæpingja hér, enga húðlata auðnuleysingja. Áfram nú, segi ég. Séra Dolan kemur og lítur inn til ykkar á hverjum degi. Séra Dolan kemur aftur á morgun.
 Hann potaði í einn drenginn með spanskreyrnum og sagði:
 - Þú, strákur! Hvenær kemur séra Dolan aftur?
 - Á morgun, herra, sagði rödd Toms Furlongs.
 - Á morgun og á morgun og á morgun, sagði deildarforsetinn. Búið ykkur undir það. Séra Dolan dag eftir dag. Haldiði áfram að skrifa. Þú, drengur, hver ert þú?
 Hjarta Stephens tók snöggan kipp.
 - Dedalus, herra.
 - Hversvegna ert þú ekki að skrifa eins og hinir?
 - Ég...mig...
 Hann kom ekki upp orði af einskærri hræðslu.
 - Hversvegna er hann ekki að skrifa, séra Arnall?
 - Hann braut gleraugun sín, sagði séra Arnall, og ég veitti honum undanþágu.
 - Braut? Hvað heyri ég? Hvað var það aftur sem þú heitir? sagði deildarforsetinn.
 - Dedalus, herra.
 - Gakktu fram, Dedalus. Lati litli ráðabruggari. Ég sé ráðabruggið í andlitinu á þér. Hvar braustu gleraugun þín?
 - Á kolasallastígnum, herra.
 - Hóhó! Kolasallastígnum! hrópaði deildarforsetinn. Ég þekki svoleiðis brellur.
 Stephen lyfti sjónum í furðu og sá sem snöggvast aldrað, gráhvítt andlitið á séra Dolan, sköllótt gráhvítt höfuðið með dúninn í vöngunum, stálspangirnar á gleraugunum og litlaus augun sem horfðu gegnum þau. Hversvegna sagðist hann þekkja svona brellur?
 - Lati amlóði og dugleysingi! hrópaði deildarforsetinn. Braut gleraugun mín! Gömul brella skólastráka! Réttu fram höndina án tafar!
 Stephen lygndi augum og rétti fram skjálfandi höndina með lófann upp. Hann fann hvernig deildarforsetinn snerti við henni til að rétta fingurna og heyrði síðan hvissandi hljóðið frá víðri ermi hempunnar þegar spanskreyrinn var reiddur til höggs. Heitt brennandi bítandi svíðandi högg, einsog þegar stafur er brotinn í tvennt, fékk skjálfandi hönd hans til að kuðlast saman eins og laufblað í loga. Og bæði vegna hljóðsins og sársaukans brutust brennheit tár frammá hvarma hans. Gervallur líkaminn skalf af hræðslu, handleggurinn titraði og kuðluð brennandi blárauð höndin skalf einsog lauf í vindi. Óp braut sér leið frammá varir hans, bæn um að fá að sleppa. En þó tárin brenndu augun og limir hans titruðu af sársauka, þá hélt hann aftur af heitum tárunum og ópinu sem sveið kverkarnar.
 - Hina höndina! hrópaði deildarforsetinn.

(s. 54-55)