40 vikur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Sunna er að ljuka vorprófum í 10. bekk. Framundan er áhyggjulaust sumar og hin frjálsu menntaskólaár. En fyrst er venjan að gera sér dagamun. Þá hittir Sunna Bigga, sætasta strákinn í bekknum. Um nóttina eru þau saman heima hjá Sunnu. Þegar líður á haustið fær sunna þann grun sinn staðfestan að nóttin með Bigga hafi dregið dilk á eftir sér.

Úr 40 vikum:

Ljósið seytlar undan hurðinni við enda gangsins og myndar lítinn poll á þykku gólfteppinu. Ég horfi á berar tærnar gægjast undan síðum náttkjólnum og finn mjúkt teppið undir þeim. Það er eitthvað svo langt frá augunum á mér og niður á þessar beru tær. Næstum eins og þær kom mér alls ekkert við. Samt eru þetta sömu tærnar og ég hef alltaf verið með.
Það er líka óvenju löng ganga inn eftir svefnherbergisganginum, frá herbergisdyrunum mínum, fram hjá baðherberginu og herbergi Lillu systur og inn að enda gangsins, að svefnherbergi pabba og mömmu. Venjulega eru þetta bara nokkur skref. Núna teygist óendanlega úr ganginum í rökkrinu. Hann er líka eitthvað svo hár og þröngur, einhvern veginn brenglaður og skekktur, eins og í hryllingsmynd þegar fólkið er að villast inni í ógnvekjandi völundarhúsi. En ég er ekkert villt. Ég er heima hjá mér.
Ég ýti við hurðinni og dyrnar opnast í hálfa gátt. Mamma situr uppi í rúminu og er að lesa. Hún lítur upp og horfir á mig yfir gleraugun.
-Sunna mín! Er allt í lagi?
Ég opna munninn til að svara, en orðin standa föst. Mamma leggur frá sér bókina og klappar á rúmstokkinn við hliðina á sér til merkis um að ég eigi að setjast hjá henni á rúmið. Það er eins og ég sé frosin. Það fer um mig hrollur of ég gríp höndunum ósjálfrátt utan um axlirnar á mér eins og til að halda á mér hita.
- Ertu lasin?
Mamma lyftir sænginni ofan af hnjánum og stendur upp af rúminu. Hún er áhyggjufull á sipinn og tekur utan um ennið á mér til að finna hvort ég sé heit. Alveg eins og þegar ég var lítil.
Mamma sleppir hendinni af enninu á mér og allt í einu er höfuðið á mér svo þungt að ég get ekki haldið því lengur uppi. Ég leyfi þí að detta niður á öxlina á mömmu, sem tekur utan um mig. Það er bæði undrunar- og áhyggjutónn í röddinni þegar hún segir:
- Þú ert ekkert heit elskan. Hvað er að? Hefur eitthvað komið fyrir?
Nú er hún búin að segja það sjálf. Þegar ég var að æfa mig inni í herberginu mínu byrjaði ég alltaf á þessu: Mamma, það hefur svolítið komið fyrir. Eða: Mamma, það hefur víst svolítið gerst. Svo fór ég næstum að hlæja, þetta var svo asnalegt. Svolítið. Svo lítið. Það var ekkert svo lítið.
(5-6)