13 dagar

13 dagar
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Um bókina

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Klöru Ósk Viðarsdóttur Smith, 15 ára. Hún er 165 cm á hæð, 56 kg, grannvaxin, með blá augu og sítt ljóst hár.

Slíkar tilkynningar berast Síðdegisblaðinu oftar en blaðamennirnir hafa tölu á. Unglingar hverfa eða láta sig hverfa. Stundum eru þetta sömu andlitin hvað eftir annað og þá fyllast samskiptamiðlar af kaldlyndum skömmum út í allt og alla. Af hverju hefur enginn kontról á þessu liði?

Ljósmyndin af stúlkunni sem lýst er eftir snertir viðkvæma strengi í brjósti Einars blaðamanns. Eitthvað í svipnum minnir hann á hans eigin dóttur þegar hún var yngri og saklausari. En nú er Gunnsa sest við hlið föður síns á Síðdegisblaðinu og vill fá að rannsaka sögu horfnu unglinganna. Hún nær sambandi við Klöru Ósk á Facebook og þær mæla sér mót – eða er það ekki svo?

Úr 13 dögum

„Nú verðum við að taka á þessum málum, kæru vinir. Daglegur rekstur ritstjórnarinnar hefur vissulega verið með ágætum í samvinnu ykkar allra síðan Hannes féll frá en við vitum að það getur ekki gengið til lengdar. Síðdegisblaðið þarf á formlegri yfirstjórn að halda. Það er mikilvægt af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna sölunnar á hlut bankans í útgáfufélaginu, sem áður var í eigu Ölvers Margrétarsonar Steinssonar. Fjárfestar vilja festu.“

Hermann Guðfinnsson framkvæmdastjóri situr teinréttur á sínum harða tréstól með spenntar greipar á Ikeaskrifborði. Hann brosir með sjálflýsandi augunum, strýkur hvítt hárið og lítur á okkur fjórmenningana sem sitjum handan borðsins.

„Þið vitið hvað Hannes vildi og þar með hvað ég vil,“ segir hann.

Allra augu beinast að mér.

„Ég styð Einar eindregið,“ segir Ásbjörn kampakátur. „Auðvitað hefði maður við aðrar aðstæður verið til í tuskið, en með konuna, dótturina, hundinn og gaukinn hans Einars fyrir norðan eru bara ekki forsendur til þess. Maður getur ekki verið alls staðar í einu, þótt ég sé alveg til skiptanna.“ Hann tekur um bumbuna sem hristist og dúar við hláturinn.

Því er ekki að neita að í samvinnu við okkur Sigurbjörgu hefur fréttastjóranum tekist með lagni sinni og glaðværð að halda uppi dampi og stemmningu á ritstjórn sem að öðru leyti er í innri tilvistarkreppu og óvissu um framtíðina. Meira að segja leiðaraskrifunum höfum við bjargað til skiptis og fengið Guffa í viðskiptafréttunum og Silju í dægurmálunum okkur til hjálpar.

Ég segi þetta upphátt og held því fram að fyrirkomulagið sé í senn lýðræðislegt, árangursríkt og raunhæft.

„Já, en við vitum að það er aðeins til bráðabirgða,“ segir þá Sigurbjörg. „Blaðið verður að fá traustan meðeiganda og traustur eigandi vill ritstjóra. Það veit enginn utanaðkomandi hver við erum eða hvernig við vinnum. Síðdegisblaðið getur ekki verið með ritstjóralausan blaðhaus til frambúðar.“

Ég reyni að gefa henni ekki illt auga. ítrekað hef ég komið þeirri skoðun á framfæri að hún væri sjálf okkar besti ritstjórakostur. Hún hefur jafn oft vísað hugmyndinni á bug. En eftir að nafn Hannesar var tekið úr blaðhausnum lítur sannarlega út fyrir að blaðið sé án ritstjóra.

Jóa hefur setið þögul og alvörugefin og það er ólíkt henni. Það eru baugar undir augunum og áhyggjuhrukkur kringum þau. Munnvikin sem jafnan snúa upp gera það ekki núna. Hún krossleggur stælta fótleggina til skiptis. „Sammála Sigurbjörgu og Ásbirni,“ segir hún loks. „Það reikna allir hérna frammi með því að Einar verði ritstjóri og allir eru sáttir við það.“

„Verra er “ segir framkvæmdastjórinn, „að ritstjóraefnið skuli vera ósátt.“

„Sko, ég þakka traustið. Það gleður mig. En ég held einfaldlega að ég nýtist blaðinu betur með fréttagreftri eins og ég hef margsagt. Og ...“

Hermann lyftir hendi. „Við eigum ekki marga kosti í stöðunni, Einar minn. Við erum öll sammála um að halda uppi merki Hannesar og standa vörð um sjálfstæði ritstjórnarinnar. Þótt fjárhagurinn sé í lagi viljum við frekar verja fé í blaðið sjálft en að kaupa skrautfjöður á ritstjórastólinn utan að. Ráðning þín er ekki aðeins faglega rétt og sterk, heldur liður í eins sársaukalausri hagræðingu og hugsast getur. Því miður þurfum við á eftir að ræða hagræðingu sem er ekki eins sársaukalaus.“ Ég veit þetta allt saman. Og það sem mestu skiptir: Eg veit líka hvað Hannes vildi. Sú staðreynd að hann arfleiddi mig að eignarhlut sínum í útgáfufélaginu styður þá vitneskju. Nú þarf að tryggja að eignarhlutur bankans falli einhverjum í skaut sem gengur þögull og þolinmóður inn í fylkingu okkar Hermanns og litlu hluthafanna.

(31-33)