12 konur

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1965
Flokkur: 

Úr 12 konum:

Snyrtimennska

Hún var búin að fara eina eftirlitsferð um íbúðina og sá, að allt var harla gott. Hvergi var ryk, og hver hlutur var á sínum stað. Hún fór aldrei út úr húsi án þess að taka til. Hún gerði ætíð ráð fyrir þeim möguleika, að hún yrði bráðkvödd úti á götu eða lenti fyrir bíl, og þá kæmi kannski ókunnugt fólk inn á heimilið. Það var skortur á háttprýði að skilja eftir sig mikla óreiðu. Í þetta sinn var hún að fara í nokkuð langt ferðalag, og þess vegna gekk hún enn einu sinni um íbúðina til vonar og vara. Og það var þá, að hún opnaði klæðaskáp mannsins síns. Samstundis kippti hún að sér hendinni og óskaði þess, að hún hefði ekki opnað skápinn. Hún flýtti sér að skella aftur skáphurðinni og fór fram í stofu. Færi ekki blómavasinn betur á litla borðinu? Hún hafði alltaf ætlað sér að skipta um, en þá varð heklaða dúllan líka að færast til; og nú snerist hún á gólfinu með dúlluna í hendinni. Hún fór ekki nógu vel á litla borðinu. Hvar átti hún að koma henni fyrir? Þetta var vandamál, sem hún varð að hugsa um í góðu tómi. Og áður en hún vissi af, var hún komin aftur inn í svefnherbergið með dúlluna í hendinni. Hún leit á klukkuna. Hún varð að flýta sér. Fólkið færi bráðum að bíða eftir henni. Annars var hún ferðbúin. Hún vissi, að dragtin fór henni vel, og hún hafði fengið sér nýja blússu í tilefni ferðarinnar. Blússan var með pífum og leggingum, sem voru svo mjög í tízku núna. Það sögðu allir, að þær gerðu mann unglegri. Hún ætlaði ekki í hana fyrr en á morgun. Hún var búin að setja hana niður í tösku, og taskan stóð í forstofunni, vandlega merkt nafni hennar og heimilisfangi. Í rauninni var henni ekkert að vanbúnaði. Hefði hún aðeins látið ógert að opna klæðaskáp mannsins síns. En eitthvað varð hún að gera við dúlluna. Og hún fór fram í eldhús og þaðan aftur inn í stofu (s. 33-34)