Beint í efni

Sölvi Björn Sigurðsson

Æviágrip

Sölvi Björn Sigurðsson fæddist 7. október 1978 á Selfossi þar sem hann bjó til ellefu ára aldurs en hann ólst síðan upp í Kópavogi og Reykjavík. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1998, stundaði nám í frönsku við Université Paul Valery í Montpellier í Frakklandi 1999 og lauk B.A. prófi í íslensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2002. Eftir það stundaði hann nám í útgáfufræðum við University of Sterling og útskrifaðist þaðan með M.litt gráðu í Publishing Studies 2005. Sölvi hefur töluvert dvalið erlendis, á Spáni og í Englandi auk Frakklands og Skotlands. Hann hefur stundað ýmis störf auk ritstarfa, meðal annars selt bækur, passað kirkjur, smíðað glugga, skráð fornleifar og litið eftir þjóðminjum.

Sölvi hefur töluvert fengist við ritstjórn, hann út bókmenntatímaritið Blóðberg ásamt Sigurði Ólafssyni 1998 og af öðrum ritstjórnarverkum hans má nefna Ljóð ungra skálda sem Mál og menning gaf út 2001 þar sem hann fetar í fótspor Magnúsar Ásgeirssonar sem ritstýrði frægri bók með sama nafni 1954. Fyrsta frumsamda bókin sem Sölvi gaf út er ljóðabókin Ást og frelsi frá árinu 2000. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur og skáldsögur auk þýðinga. Hann hefur einnig skrifað greinar og birt skáldskap og þýðingar í blöðum, tímaritum og safnritum og tekið þátt í bókmenntahátíðum hér heima og erlendis, meðal annars H.C. Islandus hátíðinni í Kaupmannahöfn 2005 og The Leith Festival í Edinborg sama ár.

Sölvi Björn Sigurðsson býr í Reykjavík.

Útgefandi: Mál og menning