Beint í efni

Birgir Sigurðsson

Æviágrip

Birgir Sigurðsson fæddist 28. ágúst 1937 í Reykjavík. Að afloknu unglingaprófi fór hann á síld fimmtán ára gamall, stundaði síðan margvísleg störf til sjós og lands næstu ár þar til hann venti sínu kvæði í kross, tók landspróf og settist í Kennaraskóla Íslands. Að afloknu kennaraprófi 1961 varð hann blaðamaður á Tímanum til 1964. Þá tók við kennsla við Mýrarhúsaskóla til ársins 1967. Síðan fór hann til Amsterdam til söngnáms en það hafði hann stundað í Tónlistarskóla Reykjavíkur í fimm ár jafnhliða kennslunni.

Í Amsterdam sneri hann snögglega við blaðinu, byrjaði að yrkja, sagði skilið við sönginn og hélt heim til Íslands með ljóðabókina Réttu mér fána í farteskinu.Hann gegndi síðan skólastjórastöðu við Ásaskóla í Gnúpverjahreppi 1968-75 og aftur í Hrísey um tveggja ára skeið, 1977-79. Hann kenndi einnig við Þingholtsskóla í Kópavogi veturinn 1975-76. Birgir gegndi varaformannsstöðu Rithöfundasambands Íslands 1982-86, var forseti Bandalags íslenskra listamanna 1985-87 og sat í stjórn Listahátíðar í Reykjavík 1985-87 og Reykjavíkur menningarborgar Evrópu 2000.

Birgir skrifaði ljóð, skáldsögur, leikrit og rit almenns eðlis, s.s. um síldarævintýrin og Korpúlfsstaði. Hann fékkst auk þess við þýðingar og gerð heimildarmynda. Leikritið Dagur vonar vakti mikla athygli þegar það var frumsýnt í Iðnó en það var gefið út á bók árið 1987. Leikrit Birgis hafa m.a. verið sýnd hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Akureyrar. Þau hafa einnig verið flutt í Ríkisútvarpinu. Erlendis hafa þau til að mynda verið sýnd í Los Angeles, London, Kaupmannahöfn, Álaborg, Þórshöfn, Vaasa og Stokkhólmi. Fyrsta skáldsaga Birgis, Hengiflugið, kom út 1993 en hann sendi síðar frá sér skáldsöguna Ljósið í vatninu (2000).

Birgir lést í Reykjavík 9. ágúst 2019.