Beint í efni

Baldur Óskarsson

Æviágrip

Baldur Óskarsson fæddist í Hafnarfirði árið 1932. Að loknu miðskólaprófi á Skógum stundaði hann nám einn vetur við lýðháskóla í Svíþjóð. Því næst hélt hann til Katalóníu þar sem hann lærði listasögu og spænskar bókmenntir einn vetur við Universidad de Barcelona. Hann var blaðamaður á Tímanum 1957-64 og starfaði síðar sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Hann var skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur 1965-73. Baldur sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands og rithöfundaferill hans spannaði rúma fimm áratugi.

Fyrsta verk hans var smásagnasafnið Hitabylgja sem kom út árið 1960. Þremur árum síðar kom út eftir hann skáldsagan Dagblað. Árið 1966 sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók (Svefneyjar) og upp frá því einbeitti hann sér einkum að ljóðagerð. Hann gaf frá sér vel á annan tug ljóðabóka, síðast bókina Langtfrá öðrum grjótum árið 2010. Safnritið Tímaland birtist árið 2000 en ljóðin í þeirri bók eru bæði á frummálinu og í þýskri þýðingu (Tímaland : kvæði = Zeitland : Gedichte). Baldur fékkst nokkuð við ljóðaþýðingar og gerði þar einkum skáldinu Federico Garcia Lorca góð skil. Baldur skrifaði einnig talsvert um myndlist í bækur og tímarit, t.a.m. um myndlistarmanninn Jón Engilberts.

Baldur lést þann 14. apríl 2013.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.