Beint í efni

Árni Ibsen

Æviágrip

Árni Ibsen fæddist í Stykkishólmi 17. maí 1948, en fluttist til móðurforeldra á Akranesi haustið 1952 ásamt móður sinni og tveimur eldri systrum og ólst þar upp. Árni lauk almennu kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1970 og stúdentsprófi frá sama skóla 1971; hann brautskráðist með BA gráðu í leiklist og enskum bókmenntum frá Exeter-háskóla á Englandi vorið 1975. Árni kenndi ensku við Ármúlaskóla í Reykjavík 1970-72 og ensku, leiklist og listasögu við Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1975-79. Hann starfaði um langt árabil sem leiklistar-og bókmenntaráðunautur Þjóðleikhússins og jafnframt sem þýðandi og leikstjóri, en frá 1995 var hann sjálfstætt starfandi rithöfundur. Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa, sat m. a. í stjórn Leikskáldafélags Íslands frá 1989 og var formaður þess 1998 - 2004.

Árni sendi frá sér nokkrar ljóðabækur, m. a. Vort skarða líf, Úr hnefa og A Different Silence, mikið, tvítyngt ljóðaúrval á bók og geisladiski sem kom út í Englandi og Bandaríkjunum haustið 2000. Seinasta verk hans var ljóðabókin Á stöku stað með einnota myndavél sem Bjartur gaf út sumarið 2007. Eftir hann liggur fjöldi leikrita sem hafa verið þýdd á tíu tungumál og sviðsett í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Færeyjum, Þýskalandi, Ungverjalandi, Eistlandi, Írlandi, Englandi og Bandaríkjunum, en hér heima hafa öll helstu atvinnuleikhúsin sýnt verk hans. Hann samdi einnig kvikmyndahandrit og margvíslegt efni fyrir útvarp og sjónvarp, þætti, stuttmyndir, leikrit og áramótaskaup. 

Árið 1996 var Árni tilnefndur til Norrænu leikskáldaverðlaunanna fyrir leikritið Himnaríki – geðklofinn gamanleik, sem hefur verið sýnt í fjölda Evrópulanda. Á meðal annarra leikrita hans eru Skjaldbakan kemst þangað líka, Fiskar á þurru landi, Elín Helena, Ef væri ég gullfiskur! og Að eilífu. Jaðarleikhúsið The Luminous Group í New York frumsýndi örleikrit Árna O, Meg! My Life Is … í desember 2000. Árni þýddi yfir 30 leikrit fyrir öll íslensku atvinnuleikhúsin, m.a. eftir Alan Ayckbourn, Samuel Beckett, Jim Cartwright, Elizabeth Egloff, Michael Frayn, Athol Fugard, David Hare, David Mamet og Arthur Miller. Hann þýddi einnig nokkrar bækur og mikið af ljóðlist, sendi m. a. frá sér Rauðar hjólbörur, úrval ljóða eftir bandaríska skáldið William Carlos Williams 1997. 

Árni var ritstjóri leikskrár Þjóðleikhússins í 15 ár og Theatre in Iceland í 12 ár, en að auki samdi hann kaflana um íslenskt leikhús og leikritun í The Cambridge Guide to Theatre, The World Encyclopedia of Contemporary Theatre og Theatre Companies of the World. Ennfremur er hann einn höfunda Alfræðibókar Arnar og Örlygs og Íslenskrar bókmenntasögu. Loks hélt hann fyrirlestra, og skipulagði og stjórnaði námskeiðum um leikritun hér heima, á Norðurlöndunum og Englandi. Á haustönn 1999 var hann „writer-in-residence“ við tvo háskóla á Englandi, De Montford Háskóla í Leicester og Háskólann í Loughborough.

Árni Ibsen lést 21. ágúst 2007.