Beint í efni

Þitt eigið ævintýri

Þitt eigið ævintýri
Höfundar
Ævar Þór Benediktsson,
 Evana
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Þitt eigið ævintýri er fjórða Þín eigin-bók Ævars Þórs Benediktssonar (sem einnig er þekktur sem Ævar vísindamaður) þar sem lesandinn er sjálfur aðalpersónan og fær að ráða því hvaða stefnu sagan tekur, eða svona að mestu leyti. Áður hafa komið út Þín eigin þjóðsaga (2014), Þín eigin goðsaga (2015) og Þín eigin hrollvekja (2016) sem allar hafa notið mikilla vinsælda meðal ungra lesenda. Sögurnar fylgja allar sömu grunnhugmynd og eru byggðar upp á svipaðan hátt; aðalpersónan er lesandinn sjálfur og sagan er sögð í annarri persónu, sem er óvenjulegt og kannski svolítið truflandi í fyrstu en venst furðuvel. Sagan fylgir hefð þeirrar sögutegundar sem hún tekur fyrir, svo sem þjóðsögu eða hrollvekju, og lesandinn fær í lok hvers kafla oftast tvo eða þrjá valkosti um hvernig hann vilji að sagan haldi áfram. Söguþræðirnir geta því orðið fjölmargir og eru mislangir. Stundum endar sagan allt í einu, yfirleitt á hræðilegan hátt, en stundum er hægt að þræða sig áfram í gegnum lengri sögur og jafnvel fá hana til að enda vel. Í Þínu eigin ævintýri eru það, eins og titillinn ber með sér, ævintýri sem eru grunnur sögunnar og eftir stutta kynningu á því hvernig þau virka almennt hefst sagan.

Aðalpersónan ákveður að fara í smá göngutúr í fallegum skógi, hún labbar í smástund en er mjög fljótlega orðin algerlega rammvillt. Hún veit ekkert hvað hún á að gera en tekur gleði sína þegar hún rekst á brauðmolaslóð sem bendir til þess að einhver hafi farið um skóginn ekki alls fyrir löngu. Hún veit samt ekki eftir hvern slóðin er né hvort sá sem skildi hana eftir hafi mögulega verið að flýja eitthvað hræðilegt. Reyndar er engin leið til að sjá í hvaða átt sá hinn sami var að fara og því frekar erfitt fyrir aðalpersónuna að ákveða hvað skuli gera. En þá heyrist ógnvænlegt urr í skóginum, það virðist færast nær og nær og aðalpersónan þarf að drífa sig að taka ákvörðun um framhaldið. Hún getur fylgt slóðinni í aðra hvora áttina eða staðið kyrr og fundið út úr því hvaða urr þetta er. Ákvörðunin sem lesandinn tekur leiðir svo aðalpersónuna á vit ólíkra ævintýra þar sem hún hittir fyrir hinar ýmsu persónur. Meðal þeirra eru Hans og Gréta og nornin í piparkökuhúsinu, tröllið undir brúnni sem geiturnar þrjár örkuðu yfir, froskaprins, prins á hvítum hesti sem ætlar að bjarga Þyrnirós, grísirnir þrír og birnirnir þrír og alls konar aðrar kunnuglegar persónur, bæði góðar og vondar. Ævintýrin sem eru tekin fyrir eru látin tengjast og skarast, allt á mjög rökréttan hátt og algerlega án þess að sagan verði ruglingsleg. Sum eru aðeins stílfærð en önnur ekki.

Þó að lesandinn þekki mörg ævintýranna veit aðalpersónan í sögunni stundum ekki hvernig ævintýrin fara eða hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru. Það er líka alveg rökrétt því það er kannski ekki líklegt að lesendur þekki öll ævintýrin sem hér eru tekin fyrir út og inn, eða muni endilega öll smáatriðin. Þekkingarleysi aðalpersónunnar er líka til þess fallið að auka spennuna í sögunni því stundum tekur hún alveg án aðkomu lesandans háskalegar ákvarðanir eða er næstum því búin að klúðra öllu. Margir kaflar enda á svo kölluðum „cliffhanger“ þar sem aðalpersónan er í bráðri hættu og hangir, sjaldnast bókstaflega þó, í lausu lofti þangað til lesandinn er búinn að gera upp hug sinn og velja framhaldið. Ævintýrapersónurnar sem koma fyrir í sögunni eru að mestu leyti byggðar á þeim sem við þekkjum úr sígildum ævintýrum en þar gefst lítið tóm til að dýpka persónur þeirra, hér er það gert að einhverju leyti og tekst býsna vel að gera þær áhugaverðar þó þær fái svo sem ekki mikið pláss hér heldur. Sumum kynnumst við samt betur en öðrum, svo sem Hans og Grétu og prinsinum á hvíta hestinum.

Önnur viðbót við sígildu ævintýrin er húmorinn sem fæst með þessu óhefðbundna sjónarhorni. Lýsingarnar á því þegar aðalpersónan kemur að piparkökuhúsinu í Hans og Grétu eru til dæmis alveg ótrúlega fyndnar. Aðalpersónan er hrædd um að banka óvart svo fast að hurðin brotni, því þetta er nú einu sinni bara piparkaka, og síðar verður hún þrátt fyrir að vera í bráðri lífshættu að viðurkenna að nornin eigi eiginlega svolitla aðdáun skilið fyrir þessa ótrúlega framkvæmd sem piparkökuhúsið er.

Í ævintýraskóginum leynast ýmsar hættur og þar gilda líka aðrar reglur en við erum vön. Í sögunni reynir á lesandann að meta aðstæður og taka ákvarðanir til að koma sér úr allskyns hættulegum klípum, framhjá nornum og úlfum til að hljóta konungsríkið að launum, eða bara komast aftur heim til sín. Þitt eigið ævintýri er mjög fyndin og hugmyndarík útfærsla á sígildu ævintýrunum. Hún er spennandi og frekar ógeðsleg á köflum og heldur þannig tryggð við frummyndina, því ævintýrin sem bókin leggur út af eru ekkert endilega notalegar sögur. Hér er því lýst í smáatriðum þegar fólki er breytt í froska eða úlfa, það bakað í risa bakaraofni eða lokað inni í morðóðu limgerði, án þess að neitt sé sykurhúðað, og þannig á það líka að vera.

María Bjarkadóttir, desember 2017