Beint í efni

Þín eigin hrollvekja

Þín eigin hrollvekja
Höfundur
Ævar Þór Benediktsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Ævar Þór Benediktsson, eða Ævar vísindamaður, er flestum landsmönnum kunnur enda hefur hann verið áberandi á hinum ýmsu sviðum menningar fyrir börn á undanförnum árum. Hann hefur meðal annars verið umsjónarmaður útvarpsþáttanna Vísindavarp Ævars og sjónvarpsþáttanna Ævar vísindamaður á RÚV og hefur auk þess skrifað bæði vísindabækur og skáldsögur fyrir börn ásamt því að standa fyrir árlegu lestrarátaki í grunnskólum landsins. Ævar Þór fékk sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu í nóvember á þessu ári fyrir stuðning við íslenska tungu með vinnu sinni til að auka lestraráhuga barna.

Þín eigin hrollvekja er þriðja bókin í Þín eigin… flokknum þar sem lesandinn fær ákveðna grunnsögu en fær svo sjálfur að ákveða hvaða stefnu sagan tekur. Fyrri bækurnar, Þín eigin þjóðsaga og Þín eigin goðsaga, hafa notið mikilla vinsælda meðal ungra lesenda. Í Þín eigin hrollvekja er notast við bakgrunn og söguþráð sem byggja á þekktum atriðum úr hrollvekjuhefðinni en hefðbundið frásagnarform brotið upp með því að bjóða lesandanum í lok hvers kafla að velja hvað gerist næst. Í fyrsta kaflanum er sögusviðið dregið upp helstu persónur kynntar. Þar kemur fram að aðalpersónan sé í pössun þar sem foreldrar hennar hafi farið í leikhús. Barnapían er alger plága og leyfir ekkert; aðalpersónan á að fara beint í háttinn klukkan átta og ekkert múður. Til að reyna að finna leið til að ná sér niður á barnapíunni læðist aðalpersónan fram. Hún fer á netið til að fræðast um hefnd og hefndaraðferðir og rekst inn á heimasíðuna www.harmaadhefna.is (sem er raunveruleg vefsíða um bókina) þar sem er boðið upp á heimsenda hefndarpakka. Hægt er að velja um að fá sendan skrímslapakka, að láta dauða hluti lifna við og að fá sendan draugapakka. Aðalpersónan, sem nennir alls ekki að lesa samninginn um hrollvekjupakkana til enda, hvað þá smáa letrið, ákveður að slá til.

Fyrsta ákvörðunin sem lesandinn þarf að taka er hver af þessum pökkum skuli pantaður. Hver valkostur um sig leiðir lesandann inn í ólíkar undirgreinar hrollvekjunnar með varúlfum, vampírum, mannætusófum eða illskeyttum draugum, svo fátt eitt sé nefnt. Þegar búið er að velja söguþráð kemur nefnilega í ljós að aðalpersónan hefur kallað yfir sig alls kyns hrylling með því að panta af vefsíðunni. Hún var ekki bara grín, þessi síða, heldur raunverulegur pöntunarlisti fyrir hrikalegar hefndaraðgerðir og þegar aðalpersónan rifjar upp það sem hún náði þó að lesa áður en hún pantaði, rámar hana í að hryllingurinn myndi standa til miðnættis og að síðasti klukkutíminn yrði verstur.

Eftir fyrsta sameiginlega kaflann ræður lesandinn förinni sjálfur, en hver einasta ákvörðun um hvaða leið skuli farið hefur alls konar ófyrirséðar afleiðingar í för með sér. Aðalpersónan kemst yfirleitt í stórkostleg vandræði óháð því hvaða leið er valin og lesandinn þarf að hafa sig allan við til að bjarga henni undan ýmsum skrímslum og fleiru hræðilegu. Það kemur fyrir að valkostirnir sem boðið er upp á séu allir jafn hrikalegir og þó að meginreglan í sögunni sé sú að því meiri áhættu sem aðalpersónan tekur því betri verði útkoman, endar meirihluti söguþráðanna illa fyrir hana. Í kynningu á bókinni kemur fram að boðið sé upp á ríflega 40 mismunandi útkomur úr sögunni og það er alveg ljóst að aðalpersónan í Þín eigin hrollvekja lifir frekar hættulegu lífi þessa fjóra tíma sem sagan spannar.

Sagan er að mörgu leyti óvenjuleg og er til dæmis sögð í annarri persónu og lesandinn alltaf ávarpaður „þú“. Í bókum þar sem lesandinn velur útkomuna er þetta algengt stílbragð og gerir að verkum að hann verður meiri þátttakandi í sögunni, það er í raun hann sem er aðalpersónan. Sögurnar eru mislangar og mishræðilegar en með því að lesandinn velji sjálfur hvaða söguþræði eigi að fylgja verður hver saga að vissu leyti ófyrirsjáanleg og sögurnar verða gjörólíkar eftir því hvaða leiðir eru valdar. Málfarið er allt mjög vandað, mikið er um orðatiltæki og erfið orð sem eru jafnan útskýrð á skemmtilegan og skiljanlegan hátt með stjörnumerkingu og neðanmálsgrein.

Þrátt fyrir ýmsan hrylling er stíllinn léttur og hraður, það er aldrei lognmolla í sögunni og má segja að sé nánast stöðugur hasar óháð því hvaða söguþráður er valinn. Samt sem áður þarf ákveðna þolinmæði við lesturinn því stundum þarf að fletta ört og jafnvel bakka þangað sem lesandinn valdi síðast ef sagan endar snögglega og lesandinn er ósáttur við endinn eða vill lengri sögu. Köflunum er, eðli málsins samkvæmt, ekki raðað í neina sérstaka röð og lesandinn þarf því mikið að fletta fram og aftur í bókinni. Það getur þess vegna verið gagnlegt að vera með nokkur bókamerki við höndina við lesturinn til þess að auðvelt og fljótlegt sé að merkja þann stað þar sem sagan kvíslaðist síðast.

Þín eigin hrollvekja er hryllingssaga með öllu sem til þarf, hryllilegum óvættum sem vilja aðalhetjuna feiga, ógnvekjandi aðstæðum sem geta endað með bráðum bana og hryllingi sem stigmagnast eftir því sem líður á söguna. Sagan er skrifuð fyrir lesendur á miðstigi í grunnskóla og er bæði spennandi og skemmtileg; Það ætti samt líklega að varast að lesa hana ef maður er mjög myrkfælinn eða einn heima og frekar að lesa hana með kveikt ljós og frammi í stofu, innan um sem flest fólk!

María Bjarkadóttir, desember 2016