Beint í efni

Á stöku stað – með einnota myndavél

Á stöku stað – með einnota myndavél
Höfundur
Árni Ibsen
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hvað er gott ljóð? er spurning sem hefur rúmstrast í mér undanfarið. Ástæðan fyrir þessu vafstri ljóðsins um rafrásir heilabarkar míns er að þessu sinni ekki endilega sú að ég er alltaf að lesa ljóð, sem ég er fljót að hafa sterkar skoðanir á, heldur er ég ásótt af öllu óljóðrænni vofu; deilum um ljóð á rafrásum netsins. En þó ekki, því umræða sú sem ég hef verið að fylgja eftir gengur í raun allsekki útá ljóð, fagurfræði, gæði og gjörvileika, heldur útá það sem Pierre Bourdieu kallar menningarauð, átök um völd yfir menningunni. Þátttakendur eru tveir hópar (hæfilega) ungra manna, annarsvegar nokkrir skólabræður mínir úr bókmenntafræðinni sem á sínum tíma voru afar uppreisnargjarnir gegn þeim sem þeir skynjuðu sem handhafa menningarauðs síns tíma, og hinsvegar öllu yngri meðlimir skáldahópsins Nýhil, sem nú eru teknir við hlutverki skólafélaga minna í uppreisninni, jafnframt því að skólabræðurnir eru orðnir að fulltrúum menningarauðsins. Er það furða að mér finnist reimt. Hluti þessarar umræðu hefur blætt yfir á síður Lesbókar Morgunblaðsins í greinaskrifum Hermanns Stefánssonar og Eiríks Arnar Norðdahls, Hauks Más Helgasonar og Ingólfs Gíslasonar, auk pistils Önnu Bjarkar Einarsdóttur.

Og nei, ég ætla ekki að rekja þessa umræðu frekar, því hún er gagnslaus að öðru leyti en því að ég fór að hugsa um hvað er gott ljóð og hvað ekki?

Ég myndi seint flokka Árna Ibsen sem menningarfátækan mann, allavega eru leikrit hans Skjaldbakan kemst þangað líka og Afsakið hlé með mínum allramestu meiriháttar-leikhúsupplifunum og breyttu sýn minni á leikhús á viðkvæmum aldri (kannski of viðkvæmum, einhvernveginn dalaði allt dálítið eftir þetta). Þó er ekki hægt að segja að Árni hafi nokkurntíma náð því að verða kanóna, hann er einfaldlega eitt þeirra fjölmörgu skálda sem starfa að sínum ritstörfum, skila af sér (sjálfsagt misgóðu) verki, sem allt verður síðan hluti af bókmenntasögunni, menningarmálinu. Því miður verð ég að játa að ég hef ekki fylgt ljóðlist hans eftir að ráði, og líklegast ekki lesið eftir hann heila ljóðabók fyrr en þessa sem nefnist Á stöku stað með einnota myndavél og ber eftirfarandi orð með sér á bakhlið: “Flest ljóðin eru ort árið 2006 þegar ég vissi að ég myndi ekki ferðast framar.” Þetta er ekki lítill farangur fyrir bók að bera og því var ég dálítið kvíðin fyrir hönd ljóðanna þegar ég hóf lesturinn. Og komst að því að kvíðinn var ástæðulaus: ljóðin eru góð. Bókin markar svosem engin sérstök þáttaskil í íslenskri ljóðagerð, hún er einfaldlega góð, þetta eru fín ljóð. En þá brast á með draugaganginum; af hverju eru ljóðin góð.

Hér væri hægt að leggja upp með menningarauðugar útlínur bókmenntafræða, en í stað þess ákvað ég að leyfa mér að leggja út á eigin ljóðasjó og gá hvað fyndist þar.

Mig langaði til að heyra góða músík. Það er eitt af ófrávíkjandi merkjum þess að ljóð eru góð, þau kalla á einhverja góða tónlist, yfirleitt tiltekna. Calexico-diskarnir voru dregnir fram, þetta eru jú ferðaljóð og Calexico hefur alltaf verið einskonar vegamúsík fyrir mér. (Nick Cave hefði alveg dugað líka, en hann er bara ekki nógu mikið á ferð).

eitthvert stórt skorkvikindi flýgur á vegg í hitanum í Faro og rotast ég held mig í forsælunni

Í þessu ljóði er reyndar ekki gott að vera mikið á ferð, því þá er hætt við meiðslum. En hvaða staður er Faro? Nafnið er kunnuglegt en landafræðiþekkinguna brestur. Og þarmeð er ég komin af stað með í ferðalagið, ég fer til Tampere sem heldur að hún sé sovésk borg á veturna, til Malmö þarsem göturnar eru auðar “og veðrið víðs fjarri / fólkið farið út / og jafnvel suður”, og til Moskvu sem er óðum að varpa af sér kommúnismanum tilbúin til “að láta kapítalismann hlunnfara sig líka”. Það er pólitík hérna. Suma staði þekki ég og gleðst yfir að hitta aftur, ýmist kunnuglega (Tampere heldur raunverulega að hún sé sovésk borg, líka á sumrin, og Malmö er einkennilega dauður staður) eða í nýju ljósi (Moskva var enn kommúnísk þegar ég var þar) og suma staði hef ég aldrei farið á en fæ tilfinningu fyrir, eins og Taunton, sem “er dálítið eins og Selfoss / og kæmi ferðalangi / síst á óvart / að finna þar bæði / Mjólkurbú Flóamanna / og KÁ”.

Tilfinning er einmitt annað einkenni góðra ljóða, þau skilja eftir fingrafar í andanum, eða bara anda í fingrunum. Það er kannski dálítið vafasamt að tala of mikið um tilfinningar í þessu tilfelli og gæti ýmsum fundist að hér sé kallað um of á tilfinningaþrungnar upplifanir (“þegar ég vissi að ég myndi ekki ferðast framar”), en ljóð fjalla jú alltaf á einhvern hátt um tilfinningar, oft í formi minninga - eða drauma. Minningar vísa til fortíðar og á einhvern hátt er ljóðið hlynnt nostalgíunni, en draumar geta vísað til framtíðar, þess sem við óskum og óskhyggja er líka vinkona ljóðsins. Margar þessara tilfinninga eru frekar tregatengdar, nostalgían og óskhyggjan, ferðalagið sem aldrei var / verður farið, minningar um horfnar borgir, hugleiðingar um hvernig tíminn breytir stöðum og staðháttum. En hvort sem það er til gleði, trega, íhugunar eða reiði, þá hlýtur það alltaf að vera mikilvægt atriði að ljóðið eigi að koma okkur við, til dæmis með því að koma við okkur.

Eins og titillinn gefur til kynna er hér verið að bregða upp myndum af stöðum, svona eins og þegar ferðalangurinn kemur heim og sýnir óljósar myndir sem allar renna saman í eitt: þarna var ég, þetta er gatan mín. Myndirnar eru misstórar, sumar ítarlegri, aðrar styttri. Fallegasta smámyndin er af Palma, sem “er öll rykfallin / einhver þarf að koma / með stóran klút”. Myndir skipta mig höfuðmáli í ljóðum, vissulega er gott og gilt að ljóðið skili af sér einhverri tilfinningu, en ekkert brjálar mig þó eins mikið og myndir. Blóðið fer á hreyfingu og ég hreinlega iða. Hér fara stærðarhlutföllin á ferð, borgin minnkar og rykklúturinn stækkar, ég sé fyrir mér risastóra hönd sem vofir yfir borginni, eða pínulitla borg á borði; heima og heiman fellur saman þegar þessi ókunnuga borg breytist í eitthvað sem ég hef í (hanskaklæddri) hendi mér. Vissuð þið það ekki? Besta leiðin til að þurrka ryk af smágerðum húsum og þröngum götum er að setja á sig hvítan bómullarhanska og handleika varlega. Í Barcelona er síestan besti tíminn, þar vakir bara ljóðmælandi “með bók og vínglas / og þessi kakkalakki / sem skondrar yfir gólfið þarna / dauðans matur”. Ég gjóa augunum á eigið gólf (þar sást einu sinni silfurskotta, hún dó) og færist svo í einni flettu hamingjusamlega til Bretlands en þar er “hrím á grasi / við Bard College / á meðan þýðendur þinga inni”. Bath rifjast upp fyrir mér en þar eru frægar menjar strangtrúar hinna fornu Rómverja “um velferð líkamans / og gjálífi”. Í sjálfri Róm er hinsvegar gengt á milli aldanna, aðeins nokkur skref milli messu Mússólínís og slátrun Sesars.

Vissulega fékk Dublin hálfgerða skemmriskírn og ekki var ég sátt við Effelturninn heldur, en svona gengur þetta bara. Mér hefur alltaf leiðst París hvortsemer. Ekki get ég heldur beint sagt að ég hafi fengið botn í draugaganginn og sé komin með lausn á því hvað er gott ljóð, en þangað til er alveg kjörið að setjast að á stöku stað og veifa einnota myndavél.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2007