Beint í efni

Staða pundsins

Staða pundsins
Höfundur
Bragi Ólafsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

En höfum við lifað spennandi lífi, við mæðginin? Spyr ég. Varla í augum sögumanns sem tæki að sér að segja frá ævum okkar. Svara ég. Og þaðan af síður fyrir lesandann sem legði á sig að lesa þennan texta. Spennan er okkar eigin. Í okkar prívat birtu frá einmanalegu tunglinu. (232)

Sem sögumaður er Madda, aðalpersóna Stöðu pundsins, ekki beinlínis óáreiðanleg, þó hún ruglist stundum á útgáfuárum hljómplatna og geri sig jafnvel seka um innsláttarvillur þrátt fyrir feril sinn sem prófarkalesari. Ágöllum hennar er líklega betur lýst sem athyglisbresti. Madda afvegaleiðist auðveldlega, týnir þræðinum og endurtekur sig jafnt og þétt, eins og til að komast aftur á braut framvindunnar. Hún minnir ekki á neinn fremur í þessum sérkennilega tjáningarmáta en Braga Ólafsson á sinni bráðskemmtilegu bloggsíðu sem einu sinni hét „Næsti kafli“ og seinna „Frændi“, en það nafn bar hún þegar hann hætti eða gerði hlé á færslum í janúar á þessu ári. Þeir sem vilja leggjast í samanburð geta fundið Frænda á bragi.funksjon.net. Staða pundsins kallar engu að síður ekki á neina sérstaka þekkingu á sagnaheimi eða stílsmáta Braga. Hún stendur öllum opin sem leggja í óreiðuna.

Það hvernig Madda hjakkar í sama farinu, endurhugsar og umorðar eftir því sem rofar til í minninu gerir þessa nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar talsvert erfiða yfirferðar, verður að viðurkennast. Þetta er kröfuharður frásagnarmáti og oft nokkuð tvísýnt hverju hann skilar umfram skipulegri frásögn. Það sem vinnst kannski fyrst og fremst er skilningur á gangverki huga sögumanns. Og sennilega verður lesandinn að viðurkenna að svona er oft umhorfs í hans eigin minni líka. Heimurinn eins og við endursköpum hann í texta er kannski skipulagður, rökvís og línulegur, en áður við fellum hann í það form er óreiðan alltaf skammt undan.

Það er líka erfiðisins virði að fylgja gönuhlaupum Möddu. Sagan sem leynist þar er sérkennilega áhrifarík og hugnæm. Þegar hún hefur dagbókaskrifin er Madda orðin ekkja, sambýlismaðurinn Sigurvin, sem alltaf er kallaður „Eldri“ til aðgreiningar frá samnefndum syni þeirra, hefur líkt og faðir Möddu stytt sér aldur. Kannski er aðalerindi sögunnar að draga upp sífellt þéttari mynd af þessum erfiða, óhamingjusama og þrúgandi manni, sem ber sterk einkenni heimilisharðstjóra:

Eldri hafði aldrei getað hugsa sér að nota smokka. „[Hann] þoldi ekki einu sinni að hafa saltstaukinn á borðinu,“ sagði ég við Hönsu þegar við nálguðumst Hlemm. „Hvað meinarðu, saltstaukinn?“ „Bláa saltstaukinn með myndinni af stráknum.“ „Hvað með hann?“ „Hann þoldi ekki að horfa á hann á borðinu. Nema þá rétt á meðan verið var að nota hann.“ „Bláa saltstaukinn?“ „Með stráknum sem er að dreifa salti yfir hlaupandi kjúklinginn.“ „ Og hvað kemur það þessu við? Ég  veit ekki hvað þú ert að tala um, Madda.“ „Hann þoldi ekki heldur mylsnu. Eða klístur. Og fullorðið fólk með bakpoka. Hann komst heldur aldrei neitt áfram labbandi nema nokkra metra í einu; það var alltaf eitthvað í skónum hans sem hann þurfti að losa úr þeim; einhver möl eða smásteinar (hvernig sem þeir komust þangað, eins og hann spurði sig jafnan sjálfur, alltaf jafn pirraður).“ (160)

En nú er Eldri dáinn, og mæðginin ná rétt saman endum, en þó ákveður Madda að hjálpa Sigurvini að panta sér hljómplötur eftir vörulista sem vinur hans kemst yfir. Árið er 1976 og það er langt í frá einfalt mál að komast yfir tónlist á þennan hátt. Tíðarandinn birtist víða í textanum, ekki síst í sambandi við gjaldeyrisviðskipti, meðferð tóbaks og áfengis og í gegnum margvísleg tengsl aðalpersónanna við útlönd, og gefur sitt krydd í það sem fram fer.

Tónlist gegnir einu þýðingarmesta hlutverkinu á frásögninni. Sérstaklega í því hvernig mæðginin tengjast gegnum tónlistina sem Sigurvin eignast en Madda sökkvir sér ekki síður í. Vandað og gáfulegt popprokk tímabilsins er þar í forgrunni: King Crimson og Roxy Music sérstaklega, sem mynda sterka andstæðu við froðulegan tónlistarsmekk Eldri (Herb Alpert). Fyrirferðarmesta tónistartengingin er þó óræð vísun í tilraunakennt anarkó-pönk hljómsveitarinnar Crass.

Einn meginþráður sögunnar, kannski drifkraftur hennar, eru nefnilega áform þeirra Möddu og Sigurvins að heimsækja gamlan vin Eldra, sem eitt sinn hét Barry en hefur nú tekið sér nafnið Fred Nerval, fest kaup á bóndabæ skammt frá London og safnað um sig hirð utangarðslistafólks og stjórnleysingja sem lifir kommúnulífi og skapar meðal annars tónlist. Lýsingin á Nerval-kommúnunni vekur strax hugrenningatengsl við Penny Rimbaud og félagar hans í pönk-listahópnum Crass. Fyrir þá sem kannast við þann menningarkima virðist allt benda til þess framan af að þetta sé einfaldlega sami hópurinn. En Bragi gerir það að lokum alveg skýrt að þetta eru tvö samfélög, annað raunverulegt en hitt uppdiktað. Enda er Nerval-gengið öllu skuggalegri hópur eins og kemur á daginn þegar af heimsókninni loksins verður.

Þegar þau mæðgin hálfpartin flýja af staðnum með hjálp þjóðverjans Klaus sem keyrir þau til Berlínar bætist enn ein tónlistarvísunin við: Kraftverk og krautrokkið. Það er örugglega ómaksins vert að leita uppi tónlistina sem ómar í bókinni, en því er eins farið með það og annað í frásögninni: það er erfiðleikum bundið að fylgja Möddu eftir. Henni er ekki gjarnt að halda til haga réttum nöfnum og lætur stundum nægja að lýsa umslögum. Það hvernig Madda talar um tónlist og tónlistarmenn á sér sterka samsvörun í fyrrnefndu bloggi Braga sjálfs.

Ótal aðrir þræðir fá sitt pláss í Stöðu pundsins. Sagan af viðtalinu sem Eldra bauðst kannski (en sennilega ekki) að taka við Júrí Gagarín. Samband Möddu við hagfræðikennarann Móða. Frændfólkið að vestan sem lifir á æðarækt. Allt þéttir þetta myndina þó fráleitt sé að tala um fléttu og varla einu sinni um söguþráð. Á hinn bóginn er sérkennileg fegurð í hversdagsbjástri Möddu og fólksins í kringum hana. Fegurð sem óreiðan og stefnuleysið í frásögninni magnar upp, ásamt framandleikanum sem slær á hversdaginn af frásagnaraðferðinni. Sambandi mæðginanna er sérlega vel lýst, sem og persónuleika hins látna eiginmanns.

Yfir öllum textanum er einhver depurð yfir því hvernig lífið líður óhjákvæmilega hjá. Smám saman gengur lesandinn takti sögunar á vald, sér það sem Madda sér, man það sem Madda man. Og óraunveruleikinn verður órökvís raunveruleikinn.

 

Þorgeir Tryggvason, nóvember 2019