Beint í efni

Skuggasaga: undirheimar

Skuggasaga: undirheimar
Höfundur
Ragnheiður Eyjólfsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Íslensku barnabókaverðlaunin í fyrra hlaut fantasían Skuggasaga: Arftakinn. Þar segir frá hinni ofurvenjulegu Sögu, sem heldur í upphafi sögunnar að hún sé bara venjuleg stelpa í Reykjavík. Hún kemst hins vegar að því að hún er í raun álfur í útlegð og ekki nóg með það heldur er búið að spá fyrir um að endurkoma hennar til Álfheima muni marka upphafið að endalokum ógnarstjórnar sem ríkt hefur þar um skeið. Þegar hún kemur til Álfheima hefur Saga nám í heimavistarskóla fyrir unga álfa en í lok Arftakans neyðist hún til að flýja úr skólanum eftir að hafa óvart orðið skólasystur sinni að bana við bardagaæfingar. Með Sögu í för er fylgjan hennar, skuggabaldurinn Baldur. Þau eru þó varla lögð af stað þegar Saga finnur skólafélaga sinn Örvar illa leikinn í haldi illvirkja. Hún bjargar honum úr klóm þeirra og í kjölfarið ákveða hann og fylgjan hans að slást í för með þeim Baldri á flóttanum. Í sameiningu ætla þau að freista þess að finna Signýju, einn stjórnenda Álfheima, sem þau telja víst að sé sín eina von.

(Lesið umfjöllun Maríu um Skuggasögu: Arftakann hér á vefnum.)

Sagan heldur áfram í Skuggasaga: Undirheimar en hún hefst þar sem Saga og Örvar eru saman á flótta á leið norður til Hamravígis, þar sem þau hafa heyrt að Signý haldi sig. Þrátt fyrir ákvörðun um að flýja saman eru Saga og Örvar engir vinir, þau eru sitt af hvorri álfaættinni en ættir þeirra eiga sér erfiða sögu svika sem lita örlög allra afkomenda þeirra og fylla þau vantrausti hvort í garð annars. Dýrin sem þau tengjast fylgjuböndum eru auk þess svarnir óvinir og það hefur áhrif á líðan þeirra nálægt hvert öðru: fylgja Sögu er skuggabaldur, sem er afkvæmi kattar og refs, og fylgja Örvars er hrafn. Þau eru hins vegar bæði hundelt og í lífsháska og sjá að þrátt fyrir allt sé best fyrir þau að vinna saman ætli þau að komast lífs af.

Á leiðinni norður ætla Saga og Örvar að hafa viðkomu í Hyrnuborg og verða sér úti um mat og vistir. Dvöl þeirra þar verður hins vegar aðeins lengri en þau ætla þar sem þeim reynist erfitt að komast út úr borginni aftur án aðstoðar. Lýst hefur verið eftir þeim báðum en það verður þeim til happs að þeim tekst að finna bandamann sem kemur þeim í skjól. Álfurinn sem hjálpar þeim vísar þeim í neðanjarðarsamfélag útskúfaðs álfaættbálks í Undirheimum þar sem miklar vonir eru bundnar við komu Sögu. Álfarnir þar eru sannfærðir um að hún sé bjargvætturinn í spádómnum og að ef hann rætist fari ógnartíðinni senn að ljúka. Þó að Saga hafi ekki hugmynd um hvernig hún eigi að geta hjálpað þeim rennur henni blóðið til skyldunnar og hún finnur að hún verður að leggja sitt af mörkum.

Á flóttanum sjá Saga og Örvar að þó fólk í Elfaborg, þangað sem Saga kom fyrst í Álfheimum, lifi í vellystingum þá er ástandið verra annarstaðar í ríkinu. Margir eru kúgaðir og lifa í mikilli fátækt og eymd. Álfum er mismunað eftir því hverrar ættar þeir eru, yfirvöld halda uppi hrikalegum aga og refsa þeim sem voga sér að reyna að mótmæla. Þau sjá samt líka hvernig álfum hefur tekist að draga fram lífið með ótrúlega litlum efnum og hvernig þeir hafa þrátt fyrir allt ekki misst vonina um að á endanum muni bjargvætturinn koma og leysa þá úr ánauðinni. Sagan sækir innblástur í heim ævintýra og fantasíunnar þar sem algengt er, eins og hér, að fólk sé kúgað af illum stjórnendum og búi við fátækt og vesöld. Saga er bjargvætturinn, kolabíturinn í ævintýrinu sem reynist vera hinn útvaldi, en þarf á þjálfun, sterkum bandamönnum og töfragripum að halda til að takast ætlunarverk sitt.

Flóttinn úr skólanum og undirbúningurinn fyrir átökin við yfirvöld Álfheima hafa þroskandi áhrif á Sögu. Hún er vissulega frekar yfirveguð týpa í upphafi og vön að láta lítið fara fyrir sér en augu hennar opnast nú fyrir ýmsu sem hún sá ekki áður. Hún lærir að dæma fólk ekki eftir útlitinu eða eftir fyrstu kynni sín af því og áttar sig á því að erfitt getur verið að greina á milli bandamanna og óvina. Samband hennar og Örvars þróast líka, úr gagnkvæmu hatri í einhverskonar mótþróafulla vináttu þegar líður á söguna.

Í Undirheimum birtist lesandanum vel úthugsaður heimur álfanna. Varpað er fram heildstæðri mynd af umhverfi, menningu og sögu þar sem ýmsum hefðum og hugmyndum úr þjóðtrú, goðsögum og fantasíum er listalega vel fléttað saman. Sagan markar sér þó ákveðna sérstöðu, meðal annars með því að eiga útgangspunkt sinn á Íslandi nútímans og skemmtilegar vísanir í fyrra líf aðalpersóna minna lesandann á þessa staðreynd. Örvar rifjar til dæmis upp fótboltamótin sem hann fór á þegar hann var yngri og Saga minnist þess hvernig hún fór stundum á Borgarbókasafnið til að láta tímann líða.

Á heildina litið er sagan hröð og spennandi, söguþráðurinn og fléttan eru vel útpæld og engir lausir endar, vandlega er gengið frá öllu í lokin en á sama tíma jafnvel gefið í skyn að sögu þeirra Sögu og Örvars sé ekki lokið, enn bíði þeirra verk að vinna í Álfheimum.

María Bjarkadóttir, desember 2016