Beint í efni

Rúnagaldur

Rúnagaldur
Höfundur
Elías Snæland Jónsson
Útgefandi
Skrudda
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Elías Snæland, gamalreyndur blaðamaður og rithöfundur, kemur hér með sína fyrstu spennusögu. Ég vil frekar kalla þetta spennusögu en glæpasögu þótt vissulega séu skilin bæði óljós, loðin og teygjanleg. Án þess að fara í smáatriðum út í muninn á glæpasögu og spennusögu er samt hægt að gera ráð fyrir að glæpasögur nútímans séu alla jafna raunsærri og jarðbundnari en hinar. Spennusagnahöfundar leyfa sér frekar að leika svolítið lausum hala og hetjur þeirra lenda oft í býsna miklum svaðilförum sem jarðbundnar vindlareykjandi löggur gætu átt erfitt með að fóta sig í. Spennusagan enda oft kölluð þriller eða tryllir og eflaust ætlunin að trylla lýðinn eða lesendurna með ótrúlegustu ævintýrum. The Bourne Identity (1980) lagði á sínum tíma dálítið línuna fyrir þrillerinn sem var miklu æsilegri en hinar seigfljótandi njósnasögur Le Carrés, Littells og fleiri álíka höfunda. Svo kom Dan Brown og nú eru allir í því sama dularfulla stuði.

Það var bara gaman að lesa Rúnagaldur. Forn sagnaarfur er hér notaður til að búa til baksvið spennusögu. Sagan fer rólega af stað og maður þarf dálítið að einbeita sér til að halda sér við efnið í fyrstu, sérstaklega þar sem verið er að greina frá trúarbrögðum Aría til forna. Þessi samnorræni menningararfur, sem ekki síst þýskir nazistar voru mjög hrifnir af, er þungamiðjan í bókinni. Vart er hægt að hugsa sér efni jafn upplagt handa okkur hérna á norðurhjara en bók í Dan Brown-stílnum sem gerir svona pælingum skil.

Sá sem þetta ritar hafði áhyggjur af því hvernig Elías ætlaði að leysa þetta mál með sögulega arfleifð Völuspár, hamar Þórs, Urðarbrunn og goð vita hvað, en Himmler og Rögnvaldur afi trúðu því að allt væri þetta til á vísum stað. Afi söguhetjunnar, Melkorku, virðist sem sé á stríðsárunum hafa starfað fyrir Heinrich Himmler í Þýskalandi. Hefst sagan með sjálfsvígi þess gamla og opnast þá Pandóruaskja sem Melkorka þarf að skoða í nokkuð rækilega. Hún kemst í ýmsan háska bæði hér heima og í Þýskalandi og má segja að höfundur sleppi vel frá því að reyna um of á trúverðugleika frásagnarinnar. Það er þó alveg á mörkunum á stöku stað. Sem betur fer, verð ég að segja, gerði höfundur ekki þá kröfu að maður færi að trúa einhverju sem vart er mögulegt og má segja að flest atriði í bókinni fái fullnægjandi skýringar.

Elías á ekki í vandræðum með skrifa skýran texta á góðri íslensku þannig að lesandinn njóti vel ferðalagsins. Þetta er afskaplega læsileg, fyrsta flokks spennusaga sem maður getur hæglega séð fyrir sér útgefna erlendis, t.a.m. í Þýskalandi.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2009