Beint í efni

Rómantískt andrúmsloft

Rómantískt andrúmsloft
Höfundur
Bragi Ólafsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Betri er krókur en kelda segir í ekki sérlega nýlegu ljóði, en þetta gætu vel verið einkunnarorð skáldskapar Braga Ólafssonar, sérstaklega nú undanfarið. Í grein í Tímariti Máls og menningar (2.2011) fjallaði ég um skáldsögurnar Sendiherrann (2006) og Handritið að kvikmynd ... (2010) (nenni ekki að skrifa allan titilinn), og kannaði þar meðal annars hvernig Bragi forðast markvisst alla hefðbundna frásagnarframvindu með því að meðal annars láta ekkert gerast, oft. Vissulega eru ekki gerðar samskonar kröfu á atburðarás í ljóðum, en þó er það sláandi hversu auðveldlega skáldinu tekst að afvegaleiða lesandann, jafnvel í einföldustu myndum.

Hér mætti vel tilfæra eldra ljóð Braga úr bókinni Klink (1995) sem nefnist „Vegfarendur“:

„Hvað þér skynjið umhverfið á skringilegan hátt,“ segir eistneski ferðalangurinn, sá sem ég hef reynt í rúman stundarfjórðung að lýsa fyrir leiðinni frá Ingólfsstræti að Nönnugötu. „Þótt ég muni aldrei rata þessa flóknu leið,“ segir hann, „hafið þér gert yðar besta til að liðsinna mér, á því er enginn vafi.“

Þó þetta ljóð sé um margt lýsandi fyrir ljóðin í Rómantísku andrúmslofti verður að slá varnagla við því að höfundurinn ætli sér að gera sitt besta til að liðsinna lesandanum – sem kemur ekki í veg fyrir að ferðalagið verði ánægjulegt og við getum vel gert eins og sá eistneski sem launar „hjálpsemina og spjallið með því að rekja fyrir mér stystu leiðina frá ráðhústorginu í Tallin niður á ferjubryggjuna við Kirjálabotn.“

Bragi Ólafsson hóf rithöfundaferil sinn sem ljóðskáld og einhvern veginn finnst mér ljóðið alltaf fara honum sérlega vel. Hann er ákaflega fundvís á þau augnablik lífsins sem eru í senn bæði ómerkileg og gagnslaus og gerir sér mat úr þeim – veisluborð þegar best lætur. Dæmi um þetta er mýmörg en hér langar mig að nefna ljóðið „Nýting tímans“ en það hefst á því að ljóðmælandi tilkynnir að nágranni sinn sé dáinn. Í ljós kemur svo að þeir hafa hist reglulega í götunni, væntanlega þar sem þeir búa, og tekið saman tal, sem báðum hefur leiðst ákaflega. „En nú þarf hvorugur okkar / að hugsa um þetta meir; // og ég get nýtt betur / þann tíma sem ég á eftir.“ Með þessum lokaorðum opnast ljóðið skyndilega og ‚nýting tímans‘ tekur á sig nýja mynd, það rifjast líka upp að í upphafsorðunum kom fram að nágranninn er „nokkrum árum eldri en ég“ og því ljóst að ljóðmælandi er þarna hugsi um eigin hag, sér að dauðinn er nær er hann hélt og því verður ‚nýting tímans‘ skyndilega knýjandi.

Annað álíka – en þó gerólíkt – dæmi er ljóðið „Undirdjúpin“:

Skip siglir frá landi. Það fjarlægist eins og maður fjarlægist mann: það verður minna en það var þegar það lá við höfnina, og alltaf minna og minna eftir því sem höfnin stækkar og himinninn þrengir að því. Svo lítið er það orðið þegar hafsröndin mætir því að hafi það haft einhverja von er sú orusta töpuð – og það sekkur.

Sjónarhornið virðist vera maður á göngu sem nálgast höfnina jafnhliða því að skipið siglir á brott. Höfnin stækkar og skipið minnkar, myndflöturinn er tvívíður og allri tilfinningu fyrir fjarlægðum hefur verið eytt. Himinninn þrengir að vesalings skipinu sem skreppur saman og er að lokum gleypt. En þar með er ekki allt sagt: hugmyndin um fjarlægð er nefnilega þarna til staðar, bara ekki hjá hinu dæmda skipi. „Það fjarlægist eins og maður fjarlægist / mann“, í upphafi er dregin fram samlíking sem hlýtur að gera lesanda hugsi; eru þetta örlög hinna fjölmörgu samskipta fólks sem eiga það til að minnka og hverfa, eða má jafnvel lesa þetta sem tilvistarlega sýn á manninn sjálfan, sem mun á endanum hverfa yst við sjónarrönd?

En í þessu getur líka falist undarlegt frelsi, eins og í prósaljóðinu „Kæra eiginkona“, en þar biður eiginmaðurinn eiginkonuna fyrir skilaboð til barnanna. Hann er á ferðalagi, staddur á hóteli, nema hann hefur í raun bókað sig inn annars staðar. „Og jafnvel þótt sá nýi dvalarstaður sé mun rúmbetri en hótelherbergið er ekki pláss fyrir neinn annan þar inni. Reyndar er ekki rétt að tala um „inni“ í því sambandi“, né heldur er hægt að ná sambandi þar: „þar er ekkert anddyri. Engin móttaka.“ Enn hljótum við að álykta að þessi nýi dvalarstaður sé dauðinn og að hvarfið inn í tómið, sem er bæði rúmbetra og móttökulaust – þó við gætum litið svo á að anddyrið sé hafsröndin – sé óumflýjanlegt. Að öðru leyti hafði prósinn lýst því vandamáli að á hótelherberginu sé útvarp sem ekki er hægt að slökkva á – en slíkt útvarp kemur reyndar við sögu í öðru ljóði, þarnæsta ljóði á eftir sem nefnist „Æskuminning“. Bíðum aðeins með það og skoðum annað prósaljóð, „Koffort“, en það tengist líka skipi og hefst á tilvitnun: „„Ég má engan tíma missa / Ég yrki.““ Ljóðlínurnar á svissneskur Frakki, Blaise Cendrars, og eru úr bók með frönskum ljóðaþýðingum, en „síðan þá hafa þessar tvær ljóðlínur gert það að verkum að ég hef ekki mátt vera að neinu öðru en að yrkja.“ Í ljóði Cendrars segir ennfremur „„Seglskip kemur í kýrauga mitt.““:

Og þetta er nákvæmlega það sem hefur gerst: seglskip hefur siglt í kýrauga mitt. Þegar ég fylgist með því – úr mínu eigin auga – heyri ég stöðugt fyrir mér brakið í köðlunum sem strekkjast utan um rárnar, og þytinn í seglunum, og dynkinn þegar koffort sem gleymdist ofan á áhaldaskápnum fellur á þilfarið og rennur síðan með fremur óþægilegu og þurru hljóði utan í lunninguna: Ég má engan tíma missa, ég yrki.

Enn á ný erum við minnt á mikilvægi þessa nýta tímann vel og sóa honum ekki á leiðinlega nágranna – sem eru í ofanálag boðberar dauðans, líkt og skipið sem eins og svo oft áður í ljóðum Braga siglir beinustu leið inn í eilífðina.

En hér sjáum við einnig dæmi um þá útúrdúra sem einkenna Rómantíska andrúmsloftið. Myndmálið gerir það að verkum að við leggjum stöðugt lykkjur á leið okkar og erum iðulega skyndilega stödd einhversstaðar allt annarsstaðar en þar sem við lögðum upp í ferðina. „Æskuminning“ er einmitt eitt af þannig ljóðum, en það hefst með orðunum: „Við að keyra inn á tvöfalda stæðið / norðanmegin við húsið, / eftir tveggja klukkustunda fjarveru frá heimilinu, / kemur minningin upp í hugann.“ Þetta er nokkuð nákvæm lýsing, við erum stödd á tvöföldu stæði, norðanmegin og höfum verið tvo tíma í burtu. Minningin fer með okkur inn í annan bíl, að morgunlagi í janúar, en ljóðmælandi er greinilega unglingur á leið í skólann, foreldrar hans keyra hann en þau eru á leið í það „sem þau kalla vinnu“. Móðirin kveikir á útvarpinu en seinna um daginn kemur svo í ljós að ekki er hægt að slökkva á því. Ljóðmælanda er kalt, hann er ekki „klæddur fyrir þann vetur / sem geisar í minningu um gamlan tíma.“ En svo skipast veður skjótt í lofti:

En nú er sumar. Nú er sumarið liðið. Það er komið haust. Og það er hlýtt. Og laufin sem hafa fallið á bílastæðið verða undir dekkjunum þegar ég keyri yfir þau. Ég hef snúið aftur heim, eftir tveggja og hálfs tíma fjarveru.

Þetta er undarlegt. Árstíðirnar líða hratt framhjá en samt erum við enn stödd á bílastæðinu (norðanmegin?) og nú eru tveir og hálfur tími liðinn. Enda kemur í ljós að ljóðmælandi „man ekki neitt, enda búnn að vera / í heimsókn hjá hálfníræðri konu / tvær síðustu klukkustundirnar – konu / sem allt man.“ Og með það erum við aftur komin í æskuminninguna um „þennan löngu liðna vetrardag“ og ljóðmælandi er klæddur í flauelsjakka af frænda sínum, „þeim sem ég veit að var aldrei til, // sem var aðeins hugarburður foreldra minna.“ Minningin hefur breyst í hugarburð sem, eftir viðkomu á bílastæðinu á ný, verður enn meira knýjandi, því:

Ég er hugarburður foreldra minna. Ég sit iacute; aftursæti appelsínugula fjölskyldubílsins, þessa bíls sem einnig er ímyndun pabba og mömmu; þau eru á leiðinni í einhverja vinnu sem þau vita – jafn vel og ég, sem veit að ekki ber að hafa orð á því - að hefur enga merkingu í raunveruleikanum.

Nei, ég næ heldur ekki áttum hér. Eða jú, það var reyndar búið að gefa áður til kynna að eitthvað væri vafasamt við þessa minningu og foreldrana, en línan „sem þau kalla vinnu“ gæti verið vísun til þess að ekki er allt eins og það á að vera. Nema nú erum við aftur komin á bílastæðið, en inn á milli hugarburða er ljóðmælandi kominn inn í húsið, horfir út um glugga og sér að „tréð yfir bílastæðinu hefur fengið lögun manns / í djúpum efnahagsþrengingum.“ Það er ennþá haust, bara svona svo það sé á hreinu. Og nú kemur í ljós að „Maðurinn í trénu er ekki aðeins þjakaður / af áhyggjum vegna afborgana af hlutunum sínum, // heldur hafa hlutirnir enga merkingu fyrir honum lengur, og hann sjálfur / ekki heldur / þegar hann stillir sér upp innan um hlutina.“ Svo virðist sem hér hafi pólitísk ádeila á efnahagshrunið og gróðærið stungið niður rótum, en þá gerist þetta:

Það líða fjörutíu til fimmtíu ár. Kínverska sendiráðið flytur í stærra húsnæði, og það er í minningunni, hinum eina áþreifanlega raunveruleika raunverulegs manns, sem foreldrar mínir sitja í framsætinu, og ég fyrir aftan þau: í aftursætinu. Kínamennirnir ekki enn búnir að fylla upp í það pláss sem er ónýtt.

Hvað eigum við að halda hér? Önnur ádeila, að þessu sinni á landvinninga athafnaskáldsins Huang Nubo? Og hvað með þessa yfirlýsingu um að minningin sé eini áþreifanlegi raunveruleikinn, við erum þegar búin að sjá að allt er þetta hugarburður og að auki er allsendis óljóst hvernig þetta allt hófst, þar sem tímasetningum, að ekki sé talað um árstíðunum, ber ekki saman.

Á þennan hátt byggir Bragi upp fjölmörg lög andstæðra merkinga sem takast á og hlaðast upp án röklegs samhengis annars en þess sem myndmálið kallar fram, og þá ekki alltaf einu sinni með skipulegum hætti. Lesandi missir hvað eftir annað fótanna, og þó hann hafi augun hjá sér er ekkert endilega víst að það gagnist, því svo skjótt skipast veðrin. Það er því ekki um annað að ræða en að leggja í lykkjurnar og treysta því að hvort sem komist verði á leiðarenda eða ekki þá muni lesturinn sanna fyrir okkur hið fornkveðna. Og skáldið Bragi mun ekki bregðast.

úlfhildur dagsdóttir, maí 2012