Beint í efni

Raddir úr húsi loftskeytamannsins

Raddir úr húsi loftskeytamannsins
Höfundur
Steinunn G. Helgadóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Eitt af skemmtilegri formum bókmenntanna eru sagnasveigar eða samtengdar smásögur. Verk af þessu tagi eru stödd mitt á milli skáldsögu og smásagna, samsett af smásögum sem saman mynda óljósa, eða kannski frekar misljósa heild eða samfellu. Stundum er einhver rammi utan um sögurnar, en ekki alltaf. Steinunn G. Helgadóttir sem er þekkt fyrir myndlist og ljóð velur sér þetta form til að spinna vef sagna ólíks fólks sem verður á vegi hvers annars, sumar persónur eru nátengdar, aðrar afar laustengdar.

Bókin Raddir úr húsi loftskeytamannsins hefst á sögu loftskeytamannsins, sem lýsir því hvernig hann var alla tíð frekar einrænn en átti þó einnar nætur ástarævintýri með ungri konu sem bjó fyrir ofan sjoppu í miðbænum. Hann flytur út á land og einangrar sig þar að mestu og helgar sig loftskeytum og skrifum. Ekki vill betur til en svo að þegar hann hefur nýlokið við handrit kemur sú bók út undir nafni annars höfundar. Eftir nokkurt maus kemst loftskeytamaðurinn að þeirri niðurstöðu að sögurnar liggi í loftinu og aðalatriðið sé að hafa réttan búnað til að fanga þær.

Loftskeytamaðurinn verður sér úti um búnaðinn og þannig hefst svo streymi sagna, eða radda, í bókinni. Þungamiðjan er í sjoppu í miðbæ Reykjavíkur, en þar búa tvíburar og móðir þeirra og reka sjoppuna. Önnur stúlkan er með gervihönd og hin er veik á geði og barnshafandi. Ýmsir gestir sjoppunnar koma við sögu, lifandi sem liðnir, svo og bóksali nokkur á ferðalagi, maður sem hún kynnist, starfsmenn hans og þannig áfram. Einnig hittum við fyrir persónu úr skáldsögu loftskeytamannsins, mann sem uppgötvar að hann á ellefu hálfsystkyni sem búa víða um land og hann leggur upp í leiðangur til að finna þau.

Það er vandaverk að byggja upp sagnasveig af þessu tagi, halda athygli lesanda – sem þarf að leggja þónokkra vinnu í lesturinn til að fikra sig milli vísbendinga og tenginga – og ekki síst að lenda verkinu, eða enda ferðalagið. Bókinni tekst að lokka lesandann áfram með ágætum en það er helst lokahnykkurinn sem heppnast ekki nægilega vel. Steinunn galdrar fram hverja persónuna á fætur annarri og þræðir inn í vefinn, ýmist með einfaldri vísbendingu eða þéttum tengingum og skapar þannig skemmtilegt flæði milli sagna. Margar persónanna eru sérlega eftirminnilegar og sjónarhornin ánægjulega ólík. Raddirnar eru fjölbreyttar og uppákomurnar margar kómískar og þannig næst lífleg og hugvekjandi margröddun innan verksins.

Hverri sögu fylgir ljósmynd sem gefur röddinni viðeigandi andrúmsloft, myndirnar eru fallegar og hefðu að ósekju mátt njóta sín betur, t.d. á heilsíðu gegnt upphafi sögunnar.

Raddirnar úr húsi loftskeytamannsins taka á sig sjálfstætt líf innan verksins. Þær tala ekki endilega saman, heldur mynda frekar raddaðan og (ó)samstæðan kór sem stingst upp í eterinn eins og uppréttir þræðir og skapa þannig mynd sem minnir á strengjabrúður sem vaða inn og út af sviðinu, rekast stundum á og stundum alls ekki. Þannig er hugmynd loftskeytamannsins, um sögur sem eru á ferð og flugi, bókstaflega útfærð í tilfinningu lesandans fyrir verkinu.

úlfhildur dagsdóttir, júní 2016