Beint í efni

Öfugsnáði

Öfugsnáði
Höfundur
Bragi Ólafsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fjarlægðir eru eitt af einkennum ljóða Braga Ólafssonar, eða réttara sagt, það að fella fjarlægðir saman svo fínlega að ljóðin kalla iðulega á endurlestur: hvernig endaði ég hér? Þrátt fyrir þetta ríkir mikil kyrrð í ljóðum hans, líkt og skáldsögum, en annað einkenni er að smíða heilmiklar og flóknar byggingar úr engu – og í engu. Sum ljóðanna í nýjustu ljóðabók Braga, Öfugsnáða, fjalla beinlínis um þetta, eins og ljóðið „Þykk teppi“ þar sem tveir vinir eru á gangi nærri Hörpu og ræða væntanlega hótelbyggingu þar sem verið er að grafa grunn og hversu „fáránlegt“ það sé „Að einhverjar pípulagnir / eigi eftir að liðast um allt þetta rými / sem núna er bara sólbakað loft“. Í öðru borgarljóði, „Tuttugu línur um borgina“, er bent á að borg falli „ekki af himnum ofan“ heldur sé hún byggð og „inn í borgina / liggur gata úr óbyggðunum“. Gatan liggur að hringtorgi og myndar spurningarmerki, „En hver er spurningin? / Hvað er það sem fellur ofan af himnum, / annað en snjórinn og froskarnir? / Rigningin?“ Rigningin þarf borg til að taka á móti sér og „þess vegna er Reykjavík“. Hún „liðast í sundur undir sólinni / en kemur til sjálfs sín aftur / þegar rignir“. „Tuttugu og fjórar línur um nýjan stað“, enn annað borgarljóð, lýsir hinsvegar óbyggðri borg sem ljóðmælandi ferðast til, sest á koll við glugga og þaðan „er þetta fína útsýni, / og engin ástæða til að reisa einhvern vegg / utan um gluggann“.

Þessi þrjú ljóð lýsa furðulegri tilfinningu fyrir fjarlægðum þar sem tími og rúm leysast upp, eins og Reykjavík sem birtist og hverfur. Eitt einkenni ljóðsins sem skáldskaparforms er að fanga andartakið, eitthvað sem er ekki endilega sýnilegt, eitthvað sem líður hjá sé það ekki gripið og notað sem efni í ljóð – eða ekki, eins og í „Eins konar millifyrirsögn“:

Áður en orðin röðuðust saman
voru öll þessi ljóð til í huganum.
Nú á bara eftir að losa þau við titlana
og taka þau í sundur.

Enn á ný birtist hér hæfileiki þess að smíða úr hinu smáa. „Form“ er dæmi um hinn fullkomna hversdagsleika þar sem ljóðmælandi fylgist með nágrönnum sínum koma út úr húsum sínum á morgnana, setjast inn í bíla og fara og koma svo aftur seinna um daginn eða kvöldið. Hann býr „í nágrenni við himininn. / Og tunglið“ og sér glitta í stjörnu á morgnana. Sjálfur fer hann ekkert, en „tunglið fyllir mánaðarlega út í sitt form.“ Aftur er varpað fram andstæðum í rými sem birtist og hverfur, opnast og lokast – ljóðmælandi þorir ekki að spyrja nágrannana hvert þeir fara, því hann óttast að þeir spyrji hann að því sama: „Öll förum við eitthvað, þótt ekki geri ég það.“

Annað ljóð um hversdaginn er „Í stað þess að tala um Guð“, en þar glímir skáldið við hvernig eigi að fjalla um „það sem er að gerast í heiminum / í augnablikinu“. Veki það enn áhuga eftir nokkur ár mun hann fjalla um það í þessu ljóði. „Þangað til / verðum við að leyfa því að gerast.“ En hann er óþolinmóður og á kláðaduft (úr ljóði eftir Dag), en það „mun þó ekki duga / í þau fimm eða sex ár sem á var minnst; / en það mun áhugi okkar / ekki heldur gera.“ Hverfulleikinn, hið klassíska viðfangsefni skáldskaparins, er hér á kreiki, en dálítið ráðvilltur að sjá, eins og snúið hafi verið á hann.

Það er sjaldan langt í húmorinn í ljóðum Braga og hann er oft svartur eins og í ljóðinu um manninn sem dó í svefni – farþegarnir voru ekki eins heppnir, þeir voru glaðvakandi. „Skírnin“ er eitt af þessum kómísku augnablikum sem eru sérkenni skáldsins en þar skipta foreldrarnir um skoðun á nafni barnsins rétt eftir að það hefur verið skírt. Sem betur fer er presturinn enn á staðnum „og til að barnið muni í framtíðinni ekki vekja þá tilhugsun hjá fólki sem það mætir í lífi og starfi að eitthvað óðagot hafi ráðið nafngift þess, verður nafnið Fjodor fyrir valinu.“

Annað prósaljóð, „Veggfóðrið úr bók Broyards“ er algerlega magnaður texti um báráttuna við það verkefni að skrifa erindi um stríð og frið fyrir hátíð í Noregi meðan veggfóður sem ljóðmælandi las um í bandarískri bók kveikir hjá honum hugmynd að smásögu. Nema ekkert gerist, hvorki smásagan né erindið fæðast og allt flækist þetta meira og meira þar til ljóðmælandi er í vanda staddur:

Þegar ég reyni sjálfur að laumast burt úr textanum (sem upphaflega átti að fjalla um stríð og frið, og gerir það núna), er einfaldlega eins og ég rekist á vegg. Og þegar ég reyni að losa sjálfan textann – þessa þröngu vistarveru sem ég hef lokað mig inni í – við lillabláar og túrkisgrænar rendurnar í pappírsáklæði Broyards, er eins og rendurnar límist enn fastar við orðin, og þeim mun fastar eftir því sem orðin verða fleiri.

Ljóðið kallast að einhverju leyti á við „Eins konar millifyrirsögn“, þar sem textinn er sjálfur farinn að ráða ferðinni og það þarf að taka til í orðunum. Jafnframt er þarna einhver óreiða í rými sem skapar sérkennilega tilfinningu, blandaða óhugnaði og kómík.

Þessi fullkomna kyrrð óreiðunnar á sér afskaplega fallega birtingarmynd í „Við Suðurgötu“. Þar situr ljóðmælandi úti í garði og sólin skín. Á borðinu er blað sem vatnskanna ver gegn vindum. Nema þegar hann fær sér vatn grípur golan blaðið „til að lesa“:

Ég horfi á eftir henni fara með það burt,

en næ að lesa nokkur orð
yfir axlirnar á henni
áður en himinninn hverfur
bakvið þéttskrifaðar síðurnar

Hann gluggar í nokkrar fréttir en átti eftir að lesa „Fréttina um endalok heimsins“, því hún var aðeins innar í blaðinu. En hann þarf ekki að lesa hana, því hann „veit um hvað hún fjallaði: // hún fjallaði um endalok heimsins.“

Bjart skin sólarinnar „lýsir upp allt // sem er framundan“ og gefur þannig til kynna mögulegar og stórfenglegar hamfarir og golan líkamnast og blaðið fyllir út í heiminn með sínum stanslausu fréttum af hörmungum. En allt byrjar þetta með ljúfri kyrramynd við Suðurgötuna, „Til að blaðið fjúki ekki / af borðinu úti í garði /set ég hálffulla vatnskönnuna ofan á það.“

Þannig blæs andartakið út og fyllir út í allkonar form, hið efnislega verður gagnsætt og hið óáþreifanlega límir sig fastar og fastar.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2017