Beint í efni

Langtfrá öðrum grjótum

Langtfrá öðrum grjótum
Höfundur
Baldur Óskarsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í upphafi bókar Baldurs Óskarssonar, Langtfrá öðrum grjótum, eru þessi orð:

Nóg er ort
og kannski var það markmið
að gefa tauminn slakan
losa knjátakið

B.Ó.

Einhverntíma tilkynni Baldur mér að nú væri hann væri hættur að yrkja ljóð. Það var fyrir allavega þremur bókum síðan. Og í fyrra sendi hann frá sér þessa massívu bók sem telur tæpar 200 síður og þarmeð tæp 200 ljóð. Einkunnarorðin eiga vel við, því þó nóg sé kannski ort er engin ástæða til annars en að gefa tauminn slakan og það virðist skáldið hafa gert, því hér ægir öllu saman, vandlega smíðuðum ljóðum, örstuttum hugleiðingum og svo ljóðum sem eru meira eða minna stef við eða einskonar samtal við ljóð annarra skálda. Að þessu leyti minnir bókin ofurlítið á síðustu bók Baldurs, Í vettling manns, en sú var þó síður ljóðabók heldur sór sig meira í ætt við minningarbrot og hugleiðingar. En sami stíllinn er viðhafður, að láta allt gossa - eða skapa óheft flæði eins og bókmenntalegri orðræða myndi vilja hafa það.

Vissulega er þetta áhættuatriði en þrátt fyrir að textarnir eða textabrotin séu missterk þá er heildarmyndin öflug og bókin verulega flott viðbót við höfundarverk skáldsins. Hér má finna ýmis fyrri einkenni verka Baldurs og í það heila sverja ljóðin sig meira í ætt við fyrri verk hans en þær bækur sem komið hafa út á síðustu tíu árum. Hér hefur Baldur horfið að nokkru frá einfaldari myndum og gengur nokkuð langt í því að skapa ljóð sem eru ekki sérlega aðgengileg í endursögn - en lýsa í staðinn vel hinni sérstæðu myndrænu sýn höfundar og föstu taki hans á íslenskri tungu og beitingu sérstæðs orðfæris.

Sem fyrr er mikið um tilvísanir til ljóða annarra skálda - og ljóða Baldurs sjálfs - auk vísana í myndlist. Nokkur áhersla er lögð á ljóð sem fjalla um klassískan skáldskap og ber þar hæst grískan (goð)sagnaheim. Jafnframt bregður skáldið á leik sem fyrr - það hefur alltaf búið mikill húmor í ljóðaheimi Baldurs, þó um það hafi lítt verið fjallað. Þannig byrjar bókin á einskonar ljóðasyrpu sem hefst á ljóðinu „Sambýliskonur”, en þar segir frá ólíkum konum og samskiptum þeirra. Til að byrja með eru þetta tvö ljóð, en svo stinga þessar konur sér aftur niður, síðar í bókinni, og þannig má rekja ýmsar slóðir fram og til baka. Einnig eru hér heillegri bálkar, eins og einn kaflinn sem nefnist einfaldlega „Barcelona”, en þar dvaldist Baldur um skeið og á greinilega enn sterkar minningar frá borginni.

Annars skiptist bókin í fimm kafla, en samsetning þeirra er ekki endilega alltaf skýr - utan kaflans um Barcelona. Það er næstum eins og viljandi að skáldið bregður á leik með hugmyndir um skipulega niðurröðun ljóða sinna og ögrar lesanda til að finna merkingu í flokkunarkerfi sínu.

Vissulega getur verið gaman að glíma við merkingarflækjur og tilvísanagnótt, en í það heila fannst mér þó miklu meira gaman að láta ljóðin bara flæða í gegnum huga minn, lesa þau hratt í gegn, aftur og aftur, skynja samspil milli þeirra - stundum afar óvænt - og fylla hugann af ókennilegum og fallegum hugmyndum og myndum. Dæmi um þetta eru tvö ljóð aftarlega í bókinni sem standa saman á opnu, „Risinn” og „Máni fiskur”. „Risinn” hefst á orðunum „Ég reyni að kalla fram / eitthvað sem er:”. Svo kemur langt bil og svo heldur ljóðið áfram:

 

Og þetta er einmitt það
sem þrælinn skiptir

Óþyrmi dauða -
risinn brýtur dyrnar
með hnefahöggi
heiman úr björtu minni

 Þér eðluskepi
 út með yður, burt

 

Eins og svo oft í ljóðum Baldurs virðast hér vera fleiri en ein saga í gangi, og upplifunin er sú að rekast á svipmyndir úr mörgum áttum sem skyndilega slær saman, hver er risinn og hver er þrællinn og hver er eðluskepið? Að þessu leyti endurskapar ljóðið á áhrifaríkan hátt samspil minninga, enda hefst það á orðum sem vísa til upprifjunar. „Máni fiskur” er svo dæmi um það hvernig Baldur skiptir skyndilega um gír og kallar fram tærar og fallegar myndir:

 

Máni svífur í bládjúpinu hálfmáni
  snýr sér -
sá er á þriðja kvartili -
  mánarönd

Hvað varð af honum?

Gamli maður, þessi fiskur hefur aldrei verið til
Ekki í þessu búri

 

Hér tekur skáldið upp kunnuglega ljóðmynd, um silfurskin mánans sem minnir á fisk í djúpum hafsins og við fylgjum hugleiðingunni, skorinn hálfmáninn virðist sprikla í bládjúpinu og hverfur - en þá er ljóðmælandi minntur á að þetta er bara mynd, hugmynd. Lokasetningin opnar svo ljóðið aftur: „Ekki í þessu búri” gefur til kynna að einhversstaðar sé mánafiskurinn til, einhversstaðar er myndin og hugmyndin annað og meira.

Þannig eru ljóð Baldurs Óskarssonar, þau hafa þann mátt að opna okkur leiftursýn inn í heim þarsem myndir eiga sér sjálfstætt líf og hugmyndir eru annað og meira.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2011.