Beint í efni

Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa

Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa
Höfundur
Eyrún Ósk Jónsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Rósa María Hjörvar

Eyrún Ósk Jónsdóttir hefur sent frá sér þrjár skáldsögur, tvær ljóðabækur og skrifað fjöldan allan af leikritum sem sett hafa verið upp bæði hérlendis og erlendis. Hún hlaut verðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir bókina Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa í sumar.

Bókin er 65 blaðsíður og skiptist í fimm hluta. Brotið er snoturt, Arndís Lilja Guðmundsdóttir kápuhönnuður aðlagar málverk Kristbergs Péturssonar og heppnast vel, úr verður falleg bók sem fer vel á hvaða náttborði sem er.

Eyrún Ósk á auðvelt með að fanga lesandann og draga inn í heim bókarinnar. Við fylgjum ljóðmælanda frá bernsku á 9. áratug síðustu aldar til loka unglingsáranna, þar sem barnið er orðið að ungri konu. Lesandi er fyrirvaralaust settur inn í heim barnsins í fyrsta hluta, Flugufótur og annað fylgimál, þar sem fyrsta ljóð bókarinnar hefst á orðunum „Ef þú veltir þér niður stóra hól / á laugardegi / eða steypir þér kollhnís / færðu garnaflækju / og grasgrænu í buxurnar.“. Í veröld barnsins er garnaflækja raunverulegur fylgikvilli galsa í leik, en getur samt ekki stöðvað leikinn: „Einn tveir þrír fjórir fimm / dimmalimm“ (bls. 4).

Í öðrum hluta, Háskaleikur og hættuspil, hittum við fyrir ljóðmælanda á landamærum bernsku og unglingsára. Nú opnast augu ljóðmælanda fyrir hinum stóra heimi og þeim tækifærum sem hann hefur mögulega upp á að bjóða, eins og til dæmis að eignast kærasta. En eins og barnið skortir ljóðmælanda yfirsýn. Til hvers er í raun ætlast af manni og hvernær þarf maður að taka afleiðingum gjörða sinna?

Í þriðja hluta, Barnagull og Bernskuþrek, er ljóðmælandi að vega og meta hætturnar við að brjóta reglunnar og bjóða hættunni heim. Um leið leggur hún grunn að leyndarmálum eins og í ljóðinu „Klámblöð og kofasmíði“ þar sem „Skítugur plastpoki/ fylltur regnblautum/ klámblöðum/ er ágætis ástæða/ til að byggja kofa“ (bls. 29).

Í gegnum barnsaugu frá blautu barnsbeini er fjórði hluti verksins.  Ljóðmælandi ályktar hiklaust um heiminn, um draugana niðri í þvottahúsi og hvernig hún ætlar sér að breyta hjólinu sínu í tívolí. Barnið rannsakar heiminn, dregur ályktanir og gerir viðeigandi ráðstafanir, eins og í samnefndu ljóði þar sem umfjöllun um hættuna sem steðjar að íslenskri tungu fær barnið til að klemma aftur munninn í viku.

Ungæði og unglingageðveiki er fimmti hluti verksins og þar er hverdagslegum athöfnum umsnúið, með augum ungmennis í hættuför. Í ljóðinu „Rússnesk rúlletta“ þarf ljóðmælandi „Að komast klakklaust / yfir matsalinn / án þess að gera sig að fífli / frammi fyrir / allri unglingadeildinni“ (bls. 62).

Ljóðin veita einstaka innsýn inn í hugarheim barnsins. En þau gera líka meira en það, þau sýna okkur hversu mótandi áhrif óljós boð og bönn hafa á hugarheim okkar og setja spurningarmerki við skynjun okkar almennt: eru þær hættur sem við hræðumst á fullorðinsárum bara annarskonar skrímsli og garnaflækjur?

Bókin er ekki laus við ádeilu, en hún er alltaf sett fram af einlægni og kímni. Það er stutt í brosið og hinn afhjúpandi hlátur. Eyrúnu tekst að fjalla um bernskuna án væmni og tilgerðar og útkoman er bók sem gaman er að lesa og endurlesa.

Rósa María Hjörvar, desember 2016