Beint í efni

Skíðaferðin

Skíðaferðin
Höfundur
Emmanuel Carrère
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um Skíðaferðina

Skáldsagan La classe de neige eftir franska höfundinn Emmanuel Carrère í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar. Sagan, sem kom út á frummálinu 1995, hlaut Prix femina verðlaunin í Frakklandi.

Nicolas er lítill strákur í skíðaferð með bekknum sínum lengst uppi á fjöllum, fjögur hundruð kílómetra frá heimili sínu. Strax frá upphafi er ljóst að ógn steðjar að. Við finnum það, við vitum það, alveg eins og hann hefur alltaf vitað það.

Í ferðinni breytist kvíðinn sem býr innra með honum í skelfilega martröð. Við vitum að óttinn er raunverulegur og að eitthvað er í þann veginn að gerast. Eitthvað sem enginn fær stöðvað.

En við hefðum helst kosið að líta fram hjá því hvaðan hættan kemur, hver ógnvaldurinn er …

Úr Skíðaferðinni

Ofan við rúm foreldra hans var hilla með þjóðbúningadúkkum og bókum. Flestar voru bækurnar um smíðar og jurtalækningar en tvær höfðu kveikt áhuga hjá Nicolas. Önnur var stór og í grænu bandi, læknisfræðileg alfræðibók sem hann þorði ekki að taka með sér inn í herbergið sitt ef ske ynni að þau sæju að hún væri ekki á sínum stað. Hann varð því að lesa hana í smáskömmtum með hjartslátt og stöðugt að líta til hálfopinna dyranna. Hin bókin hét Sögur af skelfilegum atburðum. Á forsíðunni sást aftan á konu sem var að horfa í spegil og í speglinum var glottandi beinagrind. Þetta var kilja og meðfærilegri en læknisfræðibókin. Nicolas hafði tekið hana úr hillunni og falið hana inni hjá sér án þess að segja neinum frá því; hann bjóst við að þau myndu segja að hún væri ekki fyrir börn á hans aldri.

Hann hóf lesturinn liggjandi á maganum í rúminu, tilbúinn að nota bókina Sögur og sagnir frá Egyptalandi hinu forna sem skjöld ef einhver kæmi að honum. Þar hafði hann lesið tíu sinnum söguna af Ísis og Ósíris. Í einni af „skelfilegu sögunum“ var sagt frá gömlum hjónum sme komust að því að ákveðinn verndargripur bjó yfir töframætti. Þetta var afhoggin, uppþornuð, svartleit löpp af apa. Þessi gripur gat látið þrjár óskir eiganda síns rætast. Maður hafði í hugsunarleysi beðið um dálitla peningaupphæð sem hann vantaði til þess að gera við þakið á húsinu. Konan skammaði hann óðara fyrir að hafa ekki beðið um meira, hann hefði sóað heilli ósk! Nokkrum klukkustundum síðar var bankað á dyrnar. Þar var komin maður frá verksmiðjunni þar sem sonur hjónanna vann. Hann var mjög vandræðalegur og sagðist vera mættur til að tilkynna þeim skelfilegan atburð. Slys. Sonur þeirra hafði fest í einni vélinni sem tætti hann í sundur. Hann var dáinn. Forstjóri verksmiðjunnar bað þau að þiggja ákveðna upphæð fyrir útfararkostnaðinum en það var nákvæmlega upphæðin sem faðirinn hafði beðið um! Móðirin æpti upp yfir sig af hryllingi og bar fram þá óska að þau fengju son sinn aftur! Og þegar nótt var skollin á fóru hlutar af líki sonarins að gera sig heimakomna framan við dyrnar, litlir blóðugir bútar úr holdi hans voru spriklandi á tröppunum, afskorin hönd reyndi að komast inn í húsið þar sem foreldrarnir höfðu læst sig inni skelfingu lostnir. Núna var ekki nema ein ósk eftir og þau báðu um að þessi ólýsanlegi hroði hyrfi frá augum þeirra! Að hann myndi loksins fá að deyja!

(20-2)

Fleira eftir sama höfund

Óvinurinn

Lesa meira

Líf annarra en mín

Lesa meira