Beint í efni

Serótónínendurupptökuhemlar

Serótónínendurupptökuhemlar
Höfundur
Friðgeir Einarsson
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Reynir býr við allar aðstæður til að vera hamingjusamur, en er það ekki. Nú hefur hann fengið nóg. Reynir er orðinn leiður á að vera leiður. Hvernig vindur maður ofan af slíku óyndi, rótlausum beyg? Og hvað tekur við þegar skrefið er stigið og hjálpin berst? Friðgeir Einarsson tekst hér á við hversdagslega angist með sínum ísmeygilega húmor.

Úr bókinni

   Læknirinn mæltist til þess að hann tæki hálfa töflu daglega fyrstu vikuna, en hækkaði skammtinn upp í heila töflu þaðan í frá. Þetta var spurning um aðlögun fyrir kerfi líkamans, sagði hún. Reynir lagði töfluna sem hann hafði tekið úr öskjunni á neðstu hillu baðskápsins, þrýsti vísifingrunum á hvorn enda svo hún brotnaði í tvennt, svo gott sem án áreynslu, án erfiðis.
   Hálf tafla á dag í eina viku, sjö daga? Sjö er oddatala. Ef hann færi eftir uppleggi læknisins sæti hann uppi með hálfa töflu að vikunni liðinni. Hvað ætti hann að gera með hana? Fara með hana í apótekið og láta farga henni? Eða geyma hana þangað til hann hætti að taka lyfið, hvenær sem það yrði, mögulega eftir einhver ár? Mögulega fyrr? Læknirinn hafði ekkert sagt um hvenær lyfjameðferð yrði hætt - hann hafði ekki spurt - en kannski yrði honum ráðlagt að trappa sig niður með því að taka hálfan skammt yfir eitthvert tímabil, eina viku til dæmis.
   Reynir gerði sér grein fyrir að hann væri að ofhugsa. Það var það sem Gerður kallaði það þegar henni fannst framtaksleysi hans keyra um þverbak, þegar hún hafði hann grunaðan um að hafa bollalagt allar mögulegar lausnir við tilteknu vandamáli en ekki getað valið neina - með þeim afleiðingum að vandamálið stóð eftir óleyst.
   Varla var þetta svo nojið. Ef hann tæki hálfa töflu til og með næsta þriðjudegi, tæki hann alls átta sinnum hálfa töflu en færi samt eftir fyrirmælum læknisins. Ókei, já. Auðvitað.
   Hann horfði á þann helming sem hafði ekki farið aftur ofan í plastöskjuna í lófa sínum. Átti þessi litli hvíti klumpur þá að leysa allt? Að fremja dularfullan seið með boðefnunum í heilanum og reisa hann upp úr eymdinni, glæða anda hans fjöri, gefa lífinu tilgang?

(s. 13-14)

 

Fleira eftir sama höfund

Takk fyrir að láta mig vita

Lesa meira

Ég hef séð svona áður

Lesa meira

Stórfiskur

Lesa meira