Beint í efni

Mánudagur - bara einu sinni í viku

Mánudagur - bara einu sinni í viku
Höfundur
Iðunn Steinsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Unglingabækur

Um bókina:

Stundum er haf og himinn milli lífsins í skólanum og heima fyrir og það eru ekki allir sem geta leitað skjóls heima hjá sér eftir taugatrekkjandi skóladag. Saga um vináttu, einelti, sundrung og samstöðu.

Úr Mánudagur - bara einu sinni í viku:

Mánudagar eru verstu dagar í veröldinni. Það voru ótrúleg mistök hjá Guði að búa þá til. Hann átti bara að byrja að skapa heiminn á þriðjudegi, gera vötnin og jörðina og ganga frá þessu öllu strax í staðinn fyrir að nota heila tvo daga til þess. Unnur var ekki í vafa um að ef Guð hefði verið í skóla þá hefði hann gert þetta svona. Hann hefði gert allt til að losna við hávaðann og lætin sem fylgja mánudögum.
Októbermorgunninn var dimmur og kuldalegur. Vindurinn beit hana í vangana þegar hún þrammaði af stað ásamt Evu systur sinni með skólatöskuna dinglandi á bakinu.
Það var hrollur í Unni. Fyrsti vetrardagur nýliðinn og ekkert nema ískaldur vetur framundan.
- Gott að ég er samferða þér, annars hefði ég ekki ratað í þessu myrkri, sagði Eva á milli samanbitinna tanna.
Sem betur fer hringdi bjallan þegar þær komu að skólanum. Unnur var löngu búin að mæla út hve langan tíma það tæki að labba í skólann. Hún nennti ekki að koma snemma og bíða, sérstaklega ekki á mánudögum. Eva sleit sig lausa og hljóp hlæjandi og hóandi inn á ganginn. Hún var í öðrum bekk. Unnur þrammaði þunglamalega upp stigann. 
Stelpurnar sátu við vegginn öðru megin og strákarnir hinum megin. Sumir tuldruðu eitthvað og hvísluðust á en aðrir geispuðu. Enginn hafði kveikt ljósið á ganginum, þeim þótti rökkrið þægilegra.
- Góðan daginn, sitjið þið hér í myrkrinu? Ljósið var kveikt og Olga umsjónarkennari brosti til þeirra.
- Já, þið eruð svo andskoti ljót að það er best að hafa dimmt. Snorri kom vaðandi með buxnastrenginn niðri á lærum og slökkti. 
- Kveiktu strax, drengur, sagði Olga höst. Hún var að reyna að opna stofuna en fann ekki skráargatið í myrkrinu.
- Setjið þið þá upp grímurnar, hvein í Snorra.
- Það er betra að hafa slökkt þegar maður er svona syfjaður, sagði Hlín og gelgjurnar, vinkonur hennar, tóku undir.
- Gjörið þið svo vel, sagði Olga, henni hafði tekist að opna.
Þau þokuðu sér inn. Síðastar komu gelgjurnar og það hringlaði í eyrnalokkunum í hverju spori. Elfa var fremst, hávaxin og stráksleg. Hún var fljótust að hlaupa af öllum í bekknum, hún var líka svo lappalöng.
Þær settust saman við borð og Lilja Dögg var alltaf í miðjunni, enda var hún aðalgelgjan og skipti næstum daglega um eyrnalokka. Þeir stærstu náðu niður á axlir. Hárið var svart með rauðum strípum og eyrnalokkarnir í dag í sama rauða litnum.

(s. 5-6)

Fleira eftir sama höfund

Katla gamla

Lesa meira

Líneyk og Laufey [ritdómur]

Lesa meira

Snuðra og Tuðra laga til í herberginu sínu

Lesa meira

Ævar á grænni grein

Lesa meira

Drekasaga og Leitin að gleðinni

Lesa meira

Auga Óðins: sjö sögur úr norrænni goðafræði

Lesa meira

Latter i tågen

Lesa meira

Uppáhaldslög Snuðru og Tuðru

Lesa meira

Hvert er rétta yfirborðið?

Lesa meira