Beint í efni

Haustlauf

Haustlauf
Höfundur
Björn Th. Björnsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2001
Flokkur
Greinasöfn

Úr Haustlaufum:

Ég gleymdi því áðan, að þetta var laugardagskvöld. Á sunnudagsmorguninn gefur enn óvæntari undur að líta. Þegar við röltum langsofin fram á hlað, er húsfreyjan komin á bak, á leið til kirkju. Hún er búin líkari drottningu á yfirreið um ríki sitt en bóndakonu á leið til torfkirkju sinnar. Svört, silfurhneppt í reiðhempan, hár hatturinn með svartflosuðu skyggni, söðulbríkin drifin upp með látúni, reiðin með gagnskornum kúlum og gröfnum sprotum, glitofið áklæðið í söðlinum, silfurbúin svipan í hendi hennar, útprjónaðir vettlingarnir. Við spyrjum: Var það þá rangt, að þetta sé eitt fátækasta land álfunnar? Þar sem fólk horfellur þegar grasið gleymir að spretta á vorin? Ég man ekki hvort okkur var svarað það sinnið, enda svarið þannig, að það verður aldrei með orðum mælt. Það er listþörfin í manninum, og ekki síst í fátækt, þörfin á að samsama sig hlutunum sem eru ofan og handan við öll mælanleg gildi og gera sig þannig annað og æðra en einbert hold og bein. Þann dag sem við hættum að umbreyta lambslegg í þráðralegg eða vefa rauða rönd í brekánið okkar, verður fátæktin að fátækt, og veraldlegt ríkidæmi að enn hlálegri fátækt. En því miður, í þessu landi svo ríkulegrar listhefðar, blasir sú auðfátækt hvarvetna við. Eigi að vernda fagurt hús, þarf um það að deila. Eigi að bjarga listaverkum okkar þjóðsnillinga, er við dumba að tala. Eigi að mennta það fólk til lista, sem eru arftakar hannyrðakonunnar í baðstofunni eða þjóðhagans í smiðjunni, er svarið vorkunnlátt bros. Fátæktin er á góðri leið til alræðis í þessu bjargálna landi.

Ég sagði víst: ríkulega listhefð. Þar var rangt tekið til orða: innilegri hefði verið betra, eða djúprætta. fyir réttu 21 ári kom hingað til lands danskur arkitekt, Erik Herlöv að nafni, sem hafði þann starfa hjá danska ríkinu að ferðast um lönd og setja upp sýningar á dönskum listiðnaði. Meðan hann stóð hér við, fór ég með honum í þjóðminjasafnið. Við enduðum ferð okkar niðri í Landbúnaðardeildinni. Þetta var orðin löng törn og ég labbaði mig fram á gang til að kveikja mér í pípu. En Erik þessi kom ekki. Þegar ég svipaðist um eftir honum, stóð hann uppi við vesturvegginn og handlék hrosshársreipi, sem þar héngu á uglu. Þau voru ósköp venjuleg, þríþætt úr hvítu, svartbrúnu og ljósjörpu. Til hvers eru þessu bönd, spurði hann. Til þess að binda í heybagga, svaraði ég, og flytja heim á hesti. Eru þau eitthvað sterkari, svona fléttuð úr þremur litum, spurði hann enn. Nei, sagði ég; ætli þau séu ekki bara fallegri. Þá sleppti hann reipunum, setti eilítið í axlirnar og sagði: Ég hef víða komið og margt séð. Samt átti ég ekki von á þjóð, sem ekki væri sama í hverskonar snæru hún byndi heyið sitt.

(10-12)

Fleira eftir sama höfund

Norræn málaralist: Expressionisminn ryður sér braut

Lesa meira

Brotasaga

Lesa meira

Brotasilfur

Lesa meira

Byltingarbörn

Lesa meira

Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, I

Lesa meira

Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld, II

Lesa meira

Íslenzka teiknibókin í Árnasafni

Lesa meira

Íslenzkt gullsmíði

Lesa meira

Aldaslóð

Lesa meira